Í þessum mánuði falla því miður niður aðrir hádegistónleikar vegna aðstæðna, þrátt fyrir breytt viðmið um samkomubann, sem tóku gildi í gær. Þá verður áfram nokkur röskun á starfsemi Hafnarborgar, einkum með tilliti til tónleika og annarra stórra viðburða.
Í staðinn munum við þó halda áfram að deila með ykkur efni hér á netinu, bæði tónlist og myndlist, og hér viljum við einmitt deila með ykkur þessum undurfögru tónum, þar sem hin ástsæla sópransöngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, syngur aríuna „Casta diva“ úr óperunni Normu eftir Bellini, ásamt Antoníu Hevesi, listrænum stjórnanda hádegistónleika í Hafnarborg, sem leikur á píanó.
Við hlökkum svo til að deila listinni með ykkur áfram, bæði hér á samfélagsmiðlum og eins í raunheimum, nú þegar loksins er búið að opna safnið gestum á ný.