Far – niðurtaka og rafræn leiðsögn

Sýningin Far opnaði í tilefni Ljósmyndahátíðar Íslands í upphafi árs en henni lauk í síðustu viku með hertu samkomubanni. Þá höfum við tekið sýninguna niður til þess að geta nýtt bæði þennan tíma og sýningarsalinn til að sinna mikilvægu innra starfi stofnunarinnar, með yfirferð og endurskipulagningu á safnkosti Hafnarborgar.

Á sýningunni mátti sjá samtal á milli verka þeirra Þórdísar Jóhannesdóttur, myndlistarmanns, og Ralphs Hannam, áhugaljósmyndara sem starfaði hér á landi um miðja síðustu öld. Þrátt fyrir að sýningunni sé lokið, gefst ykkur nú kostur á að upplifa hana hér í netheimum í gegnum þessa rafrænu leiðsögn, þar sem Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir frá tilkomu sýningarinnar, sköpunarferli listamannanna og völdum verkum á sýningunni.

Við þökkum öllum sem lögðu leið sína í Hafnarborg til að skoða sýninguna, á meðan henni stóð, og vonum að allir megi njóta hennar hér – bæði þeir sem eru að sjá hana í fyrsta sinn og þeir sem hafa séð hana áður. Við hvetjum ykkur enn fremur til að sækja innblástur í þeirra nálgun og finna áhugaverð sjónarhorn í kringum ykkur, í ykkar eigin daglega lífi.

Leiðsögnin er bæði textuð á íslensku og ensku.