Allra veðra von

Haustsýning Hafnarborgar 2018

Haustsýning Hafnarborgar að þessu sinni fjallar um samband mannsins við veður. Veðrið er óreiðukennt afl sem ekki er hægt að henda reiður á og hafa athafnir okkar mannanna orðið til þess að veðrið hegðar sér á óvæginn hátt, sem bitnar oftar en ekki harðast á þeim sem höllustum fæti standa. Mannfólkið hefur búið sér til ótal mismunandi hjúpa milli sín og veðursins – en á sama tíma er hver og ein manneskja sjálf himnan sem skilur að veðrið hið ytra og veðrið hið innra. Sótt er fanga í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, atburði líðandi stundar, loftslagsvísindi og veðurfræði, upplifanir og hversdagslegar aðstæður í samtímanum þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri.

Marta Sigríður Pétursdóttir, sýningarstjóri,  útskrifaðist með BA gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2008, MA gráðu í menningarfræði frá Goldsmiths College í London 2011 og MA í kynjafræði frá School of Oriental and African Studies í London 2014. Hún hefur fengist við margvísleg skrif tengd myndlist, bókmenntum, kvikmyndum og menningu.

Þátttakendur í sýningunni starfa undir merkjum myndlistarhópsins IYFAC sem hefur áður unnið að tveimur sýningum. Listamennirnir eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.

Á hverju ári kallar Hafnarborg eftir tillögum að haustsýningu safnsins en það er gert með því markmiði að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir þannig að safnið verði vettvangur þar sem myndlist fær notið sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.