Fimmtudaginn 9. október kl. 20 tekur Þóra Sigurðardóttir myndlistarmaður þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um verk sín á sýningunni Rás sem nú stendur yfir í Hafnarborg.
Þóra Sigurðardóttir á að baki langan feril og hefur verið mikilvirk í íslensku myndlistarlífi. Fyrir utan að starfa að eigin myndlist var hún um árabil skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík og hefur undanfarin ár staðið fyrir sumarlistahátíðinni Dalir og hólar. Þóra hefur haldið á annan tug einkasýninga ásamt fjölda samsýninga bæði innanlands og utan. Hún notar myndlistina til að kanna veröldina og til endurskoðunar á hversdagslegustu hlutum. Þetta má glöggt sjá í framlagi hennar til sýningarinnar Rás, en þar notar hún ofur hversdagslegan hlut sem uppsprettu teikninga sem öðlast sjálfstætt líf og eigið listrænt gildi.
Sýningin Rás var valin úr innsendum tillögum en undafarin ár hefur verkið kallað eftir tillögum að haustsýningu í Hafnarborg. Þann 13. október rennur út frestur til að skila inn tillögum að sýningu í safninu haustið 2015. Sjá nánar hér.
Sýningarstjóri Rás er Helga Þórsdóttir, menningarfræðingur. Hér teflir hún saman verkum áhugaverðra listamanna sem þekktir eru fyrir að gera huglægri reynslu efnisleg skil á áhrifaríkan hátt. Á sýningunni eru ný verk eftir myndlistarmennina Daníel Magnússon (f. 1958), Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur (f. 1956), Ívar Brynjólfsson (f. 1960), Ívar Valgarðsson (f. 1954), Sólveigu Aðalsteinsdóttur (f. 1955) og Þóru Sigurðardóttur (f. 1954).
Nánar um sýninguna hér.