
Hafnarborg, í samstarfi við Listahátíð, kynnir einstakan viðburð þar sem ólíkar listgreinar mætast og skapa flæðandi upplifun myndlistar og tónlistar. Verkið sem ber yfirskriftina Lusus naturae er afrakstur samstarfs myndlistarmannanna Ólafar Nordal og Gunnars Karlssonar við tónskáldið Þuríði Jónsdóttur. Hér er á ferðinni innsetning þar sem saman koma tónlist og hreyfimynd en jafnframt er lifandi tónlistargjörningur hluti sköpunarverksins. Lusus naturae er draumkennt og fagurt eins og djúpið, og á mörkum hins hlutbundna og óhlutbundna, þess náttúrulega og þess yfirnáttúrulega. Það segir frá hringrás lífsins; fæðingu skáldlegra lífvera, lífshlaupi þeirra, dauða og endurfæðingu. Í verkinu eru gerðar tilraunir með tíma og er atburðarásin ofur hæg eins og undir þrýstingi hafdjúpanna. En eins og í hverjum lusus er leikurinn ekki langt undan og skrípóið rennur saman við alvöru lífsins. Lusus naturae er latneskt hugtak sem gjarnan var notað um óskilgreind fyrirbæri í náttúrunni, það óútskýranlega og óflokkanlega, hverskonar afmyndun og bjögun, hvort sem hún var af mannavöldum, tilviljun eða frávik frá eðlilegri þróun. Lusus þýðir brandari og því er lusus naturae brandari náttúrunnar. Frumsamin tónlistin spilar veigamikinn þátt í verkinu. Annarsvegar hljóðmynd sem fylgir verkinu út sýningartímann og hins vegar lifandi tónlistargjörningur, tónsmíð Þuríðar Jónsdóttur fyrir söngrödd og hljóðfæraleikara.
"*" indicates required fields