Hafnarborg merki

Hafnarborg

Sýning
23.02.13 - 17.03.13
Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Brot

Í list sinni vinnur Sirra Sigrún Sigurðardóttir markvisst með líkamlega og sjónræna skynjun áhorfandans um leið og hún veltir fyrir sér spurningum um stöðu listamannsins og listarinnar í samfélaginu, samband blekkingar og raunveruleika og upplifun okkar af heiminum. Hún sækir efnivið sinn meðal annars í tölulegar staðreyndir, vísindakenningar og rannsóknir. Með myndvörpum og speglum býr hún til hreyfingu í innsetningum sínum sem framkalla sjónhverfingu, einhvers konar aflvaka sem hrífur áhorfandann með sér á vit upplifunar.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (f. 1977) lauk námi við Listaháskóla Íslands árið 2001. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík. Þar hefur hún skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna auk þess að standa að baki verkefnis Kling & Bang í tengslum við Frieze listamessuna í London árið 2008. Jafnframt því að vera í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi stundaði hún nám í listfræði við Háskóla Íslands 2003–2004 og leggur nú stund á meistaranám við School of Visual Arts í New York. Hún hlaut nýlega styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur, en sjóðurinn styrkir unga og efnilega myndlistarmenn til náms. Í desember síðastliðnum var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum.

Skráðu þig á póstlistann okkar

Fylgstu með því nýjasta sem er fram undan á safninu.

"*" indicates required fields

Bóka heimsókn