Töfrafundur – verk á gafli Hafnarborgar

Hafnarborg vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í kjölfar þess að eitt af verkum sýningarinnar Töfrafundar – áratug síðar var fjarlægt af austurgafli Hafnarborgar sunnudaginn 2. maí síðastliðinn. Tekið skal fram að unnið er að lausn málsins, sem er í ferli, en Hafnarborg leggur á það áherslu að verkið verði sett upp aftur sem allra fyrst. Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar þann 6. maí 2021 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

Bæjarráð leggur til að sótt verði um tilskilin leyfi til byggingarfulltrúa um að umræddu verki verði komið upp frístandandi fyrir utan húsið og verði staðsett á þann hátt að merki Hafnarborgar verði sýnilegt. Umhverfis- og framkvæmdasviði verði falið að útfæra uppsetninguna í samráði við listamennina og forstöðumann Hafnarborgar.

Listamennirnir Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa verið boðuð til samtals í framhaldi af samþykkt fundarins en fundargerð hans má lesa hér í heild sinni. Þá mun listráð Hafnarborgar koma saman mánudaginn 10. maí næstkomandi, með nýjum forstöðumanni stofnunarinnar, og fjalla um málsatvik.

Vonast er til þess að málið leysist á farsælan hátt.

Sönghátíð í Hafnarborg – tónlistarviðburður ársins

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut þann 17. apríl Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 sem tónlistarviðburður ársins (hátíðir), í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Sönghátíð fór fram í fjórða sinn dagana 2. til 12. júlí 2020.

Þá var boðið upp á átta tónleika með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum, auk tónlistarnámskeiða fyrir börn og fullorðna, en það vildi svo vel til að um mitt sumarið, þegar hátíðin er venjulega haldin, hafði samkomutakmörkunum verið létt nægilega til þess að dagskrá hátíðarinnar gæti farið fram með óskertum hætti.

Við í Hafnarborg erum afar stolt af þessari viðurkenningu og óskum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með verðlaunin, auk þess sem við þökkum þeim kærlega fyrir sitt göfuga starf í þágu menningar- og tónlistarlífs Hafnarfjarðarbæjar á liðnum árum.

Sönghátíð í Hafnarborg mun svo fara fram í fimmta sinn 19. júní til 4. júlí næstkomandi.

#SlowArtDay 2021 – gefðu þér tíma

Í tilefni af #SlowArtDay sem er haldin þann 10. apríl í ár hvetjum við þig, kæri listunnandi, til þess að hægja á þér og gefa þér tíma til þess að virða fyrir þér listaverk örlítið lengur en þú gerir venjulega í þeim tilgangi að tengjast verkinu enn betur og/eða uppgötva eitthvað nýtt í því sem þú hefur ekki áður tekið eftir.

Í tilefni dagsins skaltu gefa þér tíu mínútur til þess eins að horfa.

Hafnarborg er opin frá 12 til 17 í dag og nú stendur yfir sýningin Töfrafundur – áratug síðar eftir Libiu Castro & Ólaf Ólafsson og Töfrateymið. Við hvetjum fólk til þess að heimsækja sýninguna og gefa sér tíma til þess að upplifa og njóta þessa marglaga verks.

Þá er einnig upplagt að fá sér göngutúr í Hafnarfirði og virða fyrir sér eitt eða fleiri af fjölmörgum útilistaverkum bæjarins. Á vefnum utilistaverk.hafnarborg.is er að finna kort með staðsetningu allra útilistaverka í Hafnarfirði. Þar má sjá ljósmynd og upplýsingar um hvert og eitt verk með því að smella á staðsetningu þess.

Góða skemmtun og gleðilegan #SlowArtDay!

Tilnefningar til Íslensku tónlistar­verðlaunanna 2021

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 en Sönghátíð í Hafnarborg er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“, auk þess sem tónleikar Stuarts Skeltons, The Modern Romantic, sem fram fóru á hátíðinni, eru tilnefndir sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“, í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Þá óskum við Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, sömuleiðis hjartanlega til hamingju með tilnefningu þessarar nýju tónleikaraðar sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem við óskum Andrési Þór innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Einnig óskum við hinum fjölmörgu flytjendum, sem komið hafa fram á Sönghátíð, Síðdegistónum, hádegistónleikum og á tónleikaröðinni Hljóðönum, með tilnefningar sínar og ber þar sérstaklega að nefna fiðluleikarann Höllu Steinunni Stefánsdóttur, sem tilnefnd er sem „tónlistarflytjandi ársins“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Halla Steinunn tók á síðasta ári þátt í því að virkja sýningu Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, með hljóðfæraleik sínum.

Við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir að auðga starf Hafnarborgar með tónum og töfrum, auk þess sem við þökkum dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann mikla heiður sem stofnuninni er sýndur með tilnefningunum.

Haustsýning Hafnarborgar 2021 – vinningstillaga

Listráð Hafnarborgar hefur valið Samfélag skynjandi vera, í sýningarstjórn Wiolu Ujazdowska og Huberts Gromny, sem haustsýningu ársins 2021. Með því að bjóða fjölbreyttum hópi – listamönnum, fræðimönnum og fleirum – að taka þátt í sýningunni vilja sýningarstjórarnir skapa vettvang þar sem margar raddir mætast og ólíkir möguleikar tjáningar og skynjunar eru skoðaðir. Þannig mun sýningin bjóða upp á margvíslega nálgun, með áherslu á tíma, ferli og flutning, þar sem rýmið verður virkjað, kannað og nýtt á marga vegu, svo safnið breytist í stað til að mynda tengsl.

Með því að líta á tengingu okkar við heiminn sem samfélag skynjandi vera getum við nálgast efnið á nýjan hátt, hvort sem við eigum við samband manns og náttúru, manns og menningar eða samband mannsins við sjálfan sig. Hugtakið skynjandi vera leysir okkur því undan viðjum gildishlaðinna orða, svo við getum ímyndað okkur hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi. Meginhugmyndin er að spyrja spurninga um sagn- og félagsfræðilega merkingu hins mannlega, svo sem hún varðar það hvað og hver við teljum tilheyra samfélaginu. Hafnarborg og saga hússins eru einnig áhugaverður staður fyrir slíka rannsókn, enda má segja að sú breyting sem gerð var á nýtingu hússins, er því var breytt úr apóteki í safn, hafi falið í sér táknræna umbreytingu, þar sem horfið var frá læknisfræðilegum aðferðum, þ.e. lyfjafræðinni, og þess í stað leitað til hinna andlegu og menningarlegu áhrifa listarinnar.

Þá vakna spurningar um togstreituna á milli lista og vísinda, þar sem hægt er að líta á listina sem hugrænt verkfæri sem hjálpar okkur að greina það sem ekki er hægt að skýra með vísindunum einum saman – tengslin á milli hins þekkta og hins óþekkta. Með því að þenja skynfærin gefur sýningin gestum tækifæri á að upplifa stað og stund og leiða hugann að mikilvægi minninga og mismunandi samskiptaleiða, tækniþróunar og fjarskipta, er hafa valdið miklum breytingum á íslensku samfélagi, sem er að verða æ fjölbreyttara. Þessi fjölbreytileiki hefur jafnframt í för með sér tengingu við aðra staði, nýjar hefðir og siði. Hver komumaður hefur ákveðna þekkingu, eigið safn minninga, í farteskinu, sem hann notar til þess að takast á við nýjar aðstæður og óþekkt land. Ef við hugsum um listina sem tæki sem gerir okkur kleift að skilja hið ósýnilega eða ógreinilega getum við jafnvel nýtt hana til þess að takast á við ólíkar skilgreiningar og þætti þess að vera skynjandi vera.

Hubert Gromny er myndlistarmaður, fræðimaður, sýningarstjóri og rithöfundur, búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist með MA-gráðu frá Listaháskólanum í Kraków, Póllandi, árið 2015. Þá er hann með BA-gráðu frá Jagiellonian-háskólanum í Kraków, þar sem hann nam við heimspekideild skólans. Í starfi sínu kannar Hubert mörkin á milli listar, fræða og dægurmenningar, í því skyni að vinda ofan af stjórnmála- og félagsfræðilegum gildum sjónlista og menningar.

Wiola Ujazdowska er myndlistarkona, gjörningalistamaður og listfræðingur, búsett í Reykjavík. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Kóperníkusarháskólanum í Toruń, Póllandi, þar sem hún lagði einnig stund á málaralist við myndlistardeild skólans. Á árunum 2012-2013 stundaði hún svo nám við CICS í Köln, Þýskalandi. Verk Wiolu fást að mestu við líkama og kyn á hinu pólitíska sviði, með tilliti til fólksflutninga, stéttaskiptingar, landamæra og trúarkenninga, auk þess sem hún tekst á við menningar- og félagsfræðilega strúktúra í heimspekilegu, mann- og menningarfræðilegu samhengi.

Nöfn þátttakenda og upplýsingar um dagskrá sýningarinnar verða birt síðar.

Þessi sýning verður sú ellefta í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa sýningarstjórum sem ekki eiga langan feril að baki kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Myndlistarmenn ársins 2021 sýna í Hafnarborg

Starfsfólk Hafnarborgar óskar Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni hjartanlega til hamingju með Myndlistarverðlaun ársins 2021, sem Myndlistarmenn ársins, fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Þá munu Ólafur og Libia opna næstu sýningu sína, Töfrafund – Áratug síðar, í Hafnarborg laugardaginn 20. mars næstkomandi en sýningin byggir á fyrrnefndum gjörningi listamannanna og Töfrateymisins, sem fram fór í Listasafni Reykjavíkur, á götum miðborgarinnar, við Stjórnarráðið og Alþingishúsið, 3. október síðastliðinn.

Einnig óskum við öðrum verðlaunahöfum ársins innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Hlustað á listaverk – gönguferð um útilistaverk í miðbæ Hafnarfjarðar

Útivera, hreyfing, myndlist og bókmenntir sameinast í göngutúr sem er alla jafna hressandi, fræðandi og nærandi.

Gönguleið í miðbæ Hafnarfjarðar leiðir fólk á milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða. Þegar sími er borinn upp að kóðanum birtast upplýsingar um listaverkið ásamt stuttu innslagi úr bókmenntaheiminum sem tengist listaverkinu beint eða óbeint.

Það tekur þátttakendur um 40 mínútur að heimsækja öll verkin og hlusta á hvert innslag fyrir sig. Gengið er á malbikaðri jafnsléttu og hentar gangan því öllum áhugasömum óháð aldri og atgervi.

Kort af gönguleiðinni, auk staðsetninga listaverkanna, má sjá hér fyrir neðan:

Gagnvirkt kort af staðsetningum allra útilistaverka í safneign Hafnarborgar má einnig finna á slóðinni utilistaverk.hafnarborg.is.

Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg halda utan um verkefnið í tengslum við Vetrarhátíð 2021.

Gunnar Hjaltason – nýtt veggspjald í safnbúð

Hafnarborg hefur sett í sölu veggspjald eftir dúkristu Gunnars Hjaltasonar, Hafnarfirði. Veggspjaldið er í stærðinni 37 x 56 cm og er prentað í takmörkuðu upplagi. Veggspjaldið kostar kr. 2.990, það fer vel í ramma og er tilvalin gjöf fyrir listunnandann. Hægt er að hafa samband við safnbúð Hafnarborgar í gegnum [email protected] eða í síma 585 5790 alla virka daga frá kl. 12–17 og panta sér eintak.

Nú stendur yfir sýning á verkum Gunnars Hjaltasonar í Sverrissal. Gunnar (1920-1999) starfaði sem gullsmiður í Hafnarfirði um árabil en ástríða hans lá í myndlist. Hann málaði með olíu, akrýl og vatnslitum en á sýningu Hafnarborgar eru grafíkverk hans í forgrunni, enda fjölmörg slík verk varðveitt í safni Hafnarborgar. Myndefnið er landslag, bæjarlandslag Hafnarfjarðar og náttúra Íslands en Gunnar var mikill áhugamaður um útivist og myndskreytti ófáar árbækur Ferðafélags Íslands.

 

 

Þrjú þúsund – stuttmynd eftir Asinnajaq

Í tengslum við sýninguna Villiblómið er það okkur mikil ánægja að deila með ykkur stuttmyndinni Þrjú þúsund (e. Three Thousand) eftir listamanninn Asinnajaq, sem spila má hér fyrir neðan, auk þess sem hlýða má á stutta kynningu listamannsins sjálfs á myndinni fyrir ofan. Í myndinni hefur Asinnajaq nýtt sér sögulegt myndefni úr safni The National Film Board of Canada í bland við eigin myndheim, þar sem hún setur nútíð, fortíð og framtíð fólks síns fram í nýju, töfrandi ljósi. Þá kafar stuttmyndin ofan í flókna sögu og segir hana upp á nýtt með von, fegurð og nýja möguleika að leiðarljósi.

Asinnajaq ᐊᓯᓐᓇᐃᔭᖅer listamaður frá Inukjuak, Nunavik. Nýjasta kvikmynd hennar, Three Thousand (2017), blandar saman gömlu myndefni og teiknimyndagerð, þar sem hún dregur upp mynd af heimabæ sínum Inukjuak í framtíðinni. Myndin hlaut verðlaun sem besta tilraunakennda myndin á imagineNATIVE Film + Media Arts Festival 2017 og var tilnefnd til Canadian Screen Awards 2018 sem besta stutta heimildarmyndin. Hún hefur sýnt verk sín í Kanada og víðar og hlotið fjölda viðurkenninga, svo sem Technicolour Clyde Gilmour Award frá Toronto Film Critics Association. Hún er meðstofnandi Tillitarniit-hátíðarinnar, sem er tileinkuð menningu Inúíta í Montréal. Asinnajaq er ein fjögurra sýningarstjóra sem starfa nú að vígslusýningu nýrrar stofnunar um myndlist Inúíta, Inuit Art Center, í Winnipeg, Kanada, sem opnar nú í ár.

Verk Asinnajaq Hvert sem þú ferð elti ég (e. Where You Go, I Follow, 2020) er sýnt í fyrsta sinn á sýningunni Villiblóminu.


Three Thousand (2017):

Hádegistónleikar í beinni – Hanna Þóra Guðbrandsdóttir

Vegna gildandi samkomutakmarkana verður hádegistónleikum Hönnu Þóru Guðbrandsdóttur og Antoníu Hevesi streymt í beinni útsendingu á netinu, bæði á Facebook og hér á heimasíðu Hafnarborgar, þar sem við getum því miður ekki tekið á móti áhorfendum í sal Hafnarborgar að þessu sinni.

Útsendingin mun hefjast kl. 12 þriðjudaginn 3. nóvember, samkvæmt venju, og stendur í um hálfa klukkustund en hægt er að horfa á tónleikana í spilaranum hér fyrir neðan. Þá verður upptakan áfram aðgengileg á netinu að tónleikunum loknum. Beina slóð á streymið má einnig finna hér.

Við vonumst svo til þess að geta tekið á móti ykkur á hádegistónleikum í Hafnarborg áður en langt um líður.