Í hádegi föstudagsins 10. júní afhjúpaði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, nýtt vegglistaverk eftir listamanninn Juan á gafli Strandgötu 4, sem hefur verið prýddur margs konar veggmyndum síðustu ár. Undanfari málsins var sá að Juan hafði samband við Hafnarfjarðarbæ varðandi það hvort bærinn hefði til umráða húsnæði sem væri hentugt til slíks framtaks en Juan hefur vakið athygli fyrir veggmyndir sínar í almannarými víða um land undanfarin misseri.
Menningar- og ferðamálanefnd tók vel í erindi Juans og fór þess á leit við listamanninn að hann skilaði hugmynd að veggmynd við Strandgötu en skissan sem Juan lagði fram í kjölfarið byggði á minnisvörðum og útilistaverkasafni bæjarins, þar sem veggmyndin sýnir meðal annars valin verk í umsjá Hafnarborgar. Því næst var haft samband við alla höfunda listaverkanna eða afkomendur þeirra en öll gáfu þau góðfúslegt leyfi fyrir því að nota myndir af verkum sínum með þessum hætti og fá þau bestu þakkir fyrir.
Á veggmyndinni má sjá eftirtalin listaverk og minnisvarða:
· Dýrkun eftir Ásmund Sveinsson
· Skjól fyrir vinda eftir Barböru Tieaho
· Gullna hliðið eftir Elizu Thoenen-Steinle
· Minnisvarði um fyrstu lútersku kirkjuna eftir Hartmut Wolf eða Lupus
· Tröll eftir Pál á Húsafelli
· Hafnarfjarðartilbrigði eftir Sebastian
· Slæmt samband eftir Sonju Renard
· Verk án titils eftir Sólveigu Baldursdóttur
· Hundrað ára einsemd og verk án titils eftir Sverri Ólafsson
· Vaktin eftir Timo Solis
· Sigling eftir Þorkel G. Guðmundsson
Á veggmyndinni er einnig QR-kóði sem vísar á útilistaverkavef Hafnarborgar og verður vonandi til þess að vekja athygli og áhuga íbúa og aðkomumanna á þessu merkilega safni sem njóta má á eigin forsendum, á hvaða stund sem er. Í samræmi við markmið Hafnarborgar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar eru áhugasamir því eindregið hvattir til þess að fá sér göngu um bæinn – skoða verkin, staldra við og leyfa listinni að efla andann.
Hægt er að heimsækja útilistaverkavef Hafnarborgar hér.