Hafnarfjörður er splunkunýr bær. Í mörgum húsanna má enn sjá rákir í veggjunum eftir fjalirnar sem voru notaðar til að styðja við blauta steypuna. En bærinn býr samt yfir hlýju, út af fyrir sig, og fábrotnum sérkennum, eins og um gamlan smábæ sé að ræða. [1]
Árið 1952 lýsti Daninn Martin A. Hansen Hafnarfjarðarbæ á þessa leið. Nú, nokkrum áratugum og miklum framkvæmdum síðar, sýna átta samtímaljósmyndarar okkur það sem fangaði athygli þeirra, er þeir mynduðu umhverfi Hafnarfjarðar. Bær í þróun, að koma undir sig fótunum, greinilega að stefna eitthvert mjög hratt, þó það kunni að vera óljóst, að svo stöddu, hvert nákvæmlega sú leið muni liggja. Enn í dag er það mikilvægasta hugsanlega ekki það sem er, heldur það sem tíminn mun leiða í ljós.
Hér koma saman átta listamenn með ólíka nálgun og áherslur en á sumarsýningu Hafnarborgar er markmiðið að verk hvers og eins ljósmyndara fái að njóta sín á eigin forsendum, þar sem við reikum um götur Hafnarfjarðar með barnavagn, sjáum heilu hverfin taka á sig mynd á útjaðri bæjarins, beinum sjónum okkar að nýju manngerðu landslagi, sem er í mótun allt í kring, heimsækjum iðnaðarhverfi sem þarfnast umbóta, leitum óspilltrar fegurðar og einstæðra augnablika, sem falla oft í skuggann, eða finnum ummerki um huldufólk, samferðamenn okkar, sem enn þann dag í dag á það til að skakka leikinn þegar framkvæmdir eru annars vegar.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Daniel Reuter, Marino Thorlacius, Pamela Perez, Pétur Thomsen, Spessi, Staś Zawada, Stuart Richardson og Svala Ragnars, sem hafa öll unnið að ljósmyndaverkefnum í og umhverfis Hafnarfjörð á árunum 2006 til 2019. Undir þessum kringumstæðum varpa verkin ljósi á bæ á tímahvörfum og gefa innsýn í hið nýja, flókna bæjarfélag sem er að myndast – okkar náttúrulega umhverfi árið 2019.
Sýningarstjóri er Kirsten Simonsen.
[1] Martin A. Hansen. (1954). Rejse paa Island. Þýtt fyrir Hafnarborg. Kaupmannahöfn: Carit Andersen, bls. 176-177.