Þekkt eru áhrif guðspeki, mannspeki og ýmissa nýaldarfræða á listamenn. Frá síðustu öld má í þessu samhengi nefna listamenn eins og Kandinsky, Mondrian, Malevich og Klee í Evrópu, Rothko og Pollock í Bandaríkjunum og íslensku listamennina Einar Jónsson, Mugg og Jóhannes S. Kjarval. Á síðari árum hefur mátt greina áhrif frá nýaldarspeki í listum og um þessar mundir má glögglega greina þau í myndlist margra íslenskra og alþjóðlegra samtímalistamanna. Á þessari sýningu eru verk nokkurra starfandi listamanna skoðuð útfrá myndgerð nýaldarfræðanna og forsendum listasögunnar. Jafnframt verða sýnd myndverk nokkurra annarra Íslendinga er fást við myndgerð sem talin er hafa heilandi áhrif eða tekur mið af nýaldarspeki. Hér mætast því verk með ólík markmið. Þau endurspegla andleg áhrif sem bæði eru fólgin í afstöðu listamannanna, formgerð verkanna og þeim markmiðum sem þeim er ætlað að ná. Þannig eru verk heilara, sem til dæmist túlka andlega meistara, form og litasamsetningar er taka mið af tíðni, árubliki og orkustöðvum líkamans sýnd ásamt verkum listamanna er vinna með form, liti og persónulegar tengingar við alheimsorkuna.
Sýnendur eru: Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Daði Guðbjörnsson, Erla Þórarinsdóttir, Helga Sigurðardóttir, Helgi Þórsson, Hulda Vilhjálmsdóttir, Ingibjörg Magnadóttir, Katrín Snæhólm Baldursdóttir, Margrét Elíasdóttir, Reynir Katrínar, Sigrún Olsen, Sigtryggur Berg Sigmarsson, Snorri Ásmundsson, Steingrímur Eyfjörð, Viðar Aðalsteinsson og Þórey Eyþórsdóttir.
Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.
Um sýninguna:
Tilraun til að beisla ljósið Titill sýningarinnar; Tilraun til að beisla ljósið, er fenginn úr einni af lýsingum Daða Guðbjörnssonar á eigin list. Í samhengi þessarar sýningar vísar ljósið til uppljómunar í guðspekilegum skilningi, leiðarljóss og hughrifa. Einnig vísar titillinn til ljóssins er yfirvinnur myrkrið, ljóssins sem tákns fyrir hið óútskýranlega, en ekki síður til ljósbrota er birtast okkur sem litadýrð. Sýningin er nokkurskonar litasinfónía, óður til þess magnaða fyrirbæris sem ljósbrot og litir eru, og áhrifa þeirra á andann og lífsgleðina.
Sýningin hverfist um myndlistina sem farveg fyrir andlega leit og -upplifanir og þá endurspeglun alheimsorku er liggur að baki allri framvindu og umlykur allt.
Með andlegri leit er hér í víðum skilningi átt við þörfina fyrir að nálgast þekkingu á sálarkjarnanum og öðlast innra jafnvægi og tengingu við alheimsorkuna.
Sýnendur eru sextán talsins, íslenskir myndlistarmenn og heilarar. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á áhrif andlegra fræða á íslenska samtímalistamenn og gefa innsýn inn í þær fjölbreyttu myndgerðir er þau áhrif leiða af sér. Jafnframt eru skoðaðir snertifletir valinna verka þeirra við myndverk heilara.
Verkin eru innblásin af andlegum upplifunum, dulspeki og leiðum til heilunar, svo sem hugleiðslu, yoga og skilaboðum frá æðri tilverustigum, en þetta eru þættir er flestallir sýnendur tengja sig við í list sinni og persónulegu lífi. Verkin eru unnin af sterkri löngun til að myndgera andlegar upplifanir og deila þeim með og/eða vekja slíkar upplifanir hjá sýningargestum. Þannig eru verk heilara, sem til dæmist túlka andlega meistara og litasamsetningar er taka mið af tíðni, árubliki og orkustöðvum líkamans sýnd ásamt verkum listamanna er vinna með form, liti og persónulegar tengingar við alheimsorkuna. Það leynist margt í þessum verkum, sumt mætir auganu en annað er líkt og ofið inn á milli laga og verður ekki svo auðveldlega skilgreint eða skýrt á rökrænan hátt. Þessi vefnaður ósýnilegra þráða er í raun kjarni verkanna, sú hleðsla sem lögð er í þau við gerð þeirra.
Sýningin er tilraun til að opna fyrir svæði þar sem sérsvið sýnenda; myndlist og heilun, mætast og gefa sýningargestum færi á að velta fyrir sér hugmyndafræðilegum og fagurfræðilegum tengingum listarinnar við hin andlegu svið. Slíkar tengingar höfðu sérstök áhrif á listasöguna á 19. öld þegar margir listamenn hófu að kynna sér spírítisma og urðu fyrir sterkum áhrifum af kenningum guðspeki og mannspeki. Frá síðustu öld má í því samhengi nefna myndlistarmenn svo sem Kandinsky, Mondrian og Malevich í Evrópu, Rothko og Pollock í Bandaríkjunum og íslensku listamennina Einar Jónsson, Guðmund Thorsteinsson-Mugg og Jóhannes S. Kjarval. Áhrif andlegra fræða hafa verið mismikil og mis-sýnileg í list síðastliðinna áratuga enda sveiflast slíkar áhrifabylgjur til líkt og á öðrum sviðum samfélagsins. En um þessar mundir má greina slík áhrif í myndlist margra íslenskra og alþjóðlegra samtímalistamanna auk vaxandi áhuga á andlegum áhrifum hjá alþjóðlegum listasöfnum.
Óskandi er að þessi sýning megi vekja áhuga á og verða hvatning til frekari rannsókna á áhrifum andlegra fræða í íslenskri myndlist fyrr og nú, og megi opna frekar fyrir slíka túlkun á list myndlistarmanna fyrri tíðar.
Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri
Tilraun til að beisla ljósið
Samsýning sextán listamanna