Á Kúbu eru miklar líkur á því að stakur söngfugl í búri verði á vegi ferðamanna áður en langt um líður – en rík hefð er fyrir því að halda söngfugla á eynni, sem hluti af menningararfleifð eyjarbúa. Katrín Elvarsdóttir kynntist þessu sjálf á ferðalagi sínu til Kúbu fyrir nokkru síðan en það voru einn eða fleiri fuglar í gluggum flestra íbúðanna sem hún gekk þar fram hjá, litlir gleðigjafar í skrautlegum búrum á fáskrúðugum, tómlegum heimilum. Þá kann að vera að Kúbverjar finni til nokkurrar samkenndar með söngfuglunum, sem eru ekki frjálsir ferða sinna. Einangraður einstaklingur finnur til tengsla við fugl sem er fastur í eigin búri. Á svæði þar sem efnahagslegar þrengingar eru almenn regla, frekar en undantekning, er ekki ósennilegt að það að halda söngfugl sé til marks um ákveðinn lúxus, líkt og þessu sé ætlað að gefa í skyn vellystingar með því að breiða yfir bágindi og skort.
Katrín Elvarsdóttir lauk BFA námi frá Art Institute í Boston árið 1993. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis, svo sem Leitina að sannleikanum í BERG Contemporary árið 2018, Double Happiness í Gerðarsafni árið 2016, Vanished Summer í Deborah Berke, New York, árið 2014 og Hvergiland í Listasafni Reykjavíkur árið 2010. Þá hafa verk Katrínar verið sýnd á samsýningum víða, þar á meðal á Þöglu vori í Hafnarborg árið 2020. Fjórar bækur hafa áður verið gefnar út með ljósmyndum Katrínar og verður bókin Songbirds, sem kemur út samhliða sýningu hennar í Hafnarborg, sú fimmta. Katrín hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna eins og EIKON Award árið 2017, Deutsche Börse Photographic Prize árið 2009 og heiðursverðlauna Myndstefs árið 2007.
Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.