Sólveig Eggerz Pétursdóttir (1925-2016) sýndi 66 vatnslitamyndir í aðalsal Hafnarborgar. Kveikjan að sýningunni var samtal listakonunnar við Önnu Júlíönu Sveinsdóttur, mezzósópran, þar sem þær ræddu möguleika á samvinnu söngs og myndverka. Þá söng Anna Júlíana ljóð við tónlist Atla Heimis Sveinssonar við opnunina en margar mynda Sólveigar voru nokkurs konar lýsingar á þeim ljóðatextum sem sungnir voru.
Sólveig reyndi að vinna með vatnsliti á fjölbreyttan hátt í verkunum en hún stundaði bæði myndlistarnám hér á landi og í Englandi. Þá hafði hún þegar sýnt verk sín á fjölmörgum einka- og samsýningum á Íslandi og víða erlendis. Fyrsta sýning Sólveigar var í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1960.