Á sýningunni gefst tækifæri til að kynnast sérstæðum og persónulegum myndheimi Erlu Stefánsdóttur. Erla er þekktur sjáandi og eru verkin byggð á upplifunum hennar af ýmsum birtingarmyndum þeirrar orku er umlykur allar verur og fyrirbæri náttúrunnar. Hún hefur ríka þörf fyrir að miðla upplifunum sínum í myndverkum og veitir þannig innsýn í þá veröld sem hún skynjar. Á sýningunni er gefin heildarmynd af áratugalöngu starfi Erlu; skrifum hennar og teikningum af orkulínum jarðar, hugformum, huldufólki, álfum og hýbýlum þeirra.
Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.
Um sýninguna:
Skynjun mín
Erla Stefánsdóttir
„Skynjun mín er sérstök og vil ég biðja þig að taka henni sem hverju öðru ævintýri“.
Þannig hefst inngangur Erlu Stefánsdóttur, sjáanda og píanókennara, á myndrænu korti er sýnir og segir frá huliðsheimum og er byggt á sérstakri skynjun hennar á náttúrulegum orkulínum og hulduverum. Þessi setning Erlu er eitt af leiðarstefjum sýningarinnar og hvatning til þess að skoða myndverk hennar í ljósi listasögunnar, hverrar eigið leiðarstef er sambland ævintýris og raunskynjunar.
Sýningin hverfist um teikningar og skrif Erlu frá áttunda áratugnum til dagsins í dag. Hún hefur um langt skeið miðlað sérstakri skynjun sinni og þekkingu með námskeiðum, fyrirlestrum, skrifum og sem leiðbeinandi um andleg málefni. Það hefur hún að mestu gert á vettvangi Lífsýnar; samtaka til sjálfsþekkingar sem hún stofnaði í Reykjavík fyrir réttum 25 árum og starfrækir enn.
Mikilvægur þáttur í miðlun Erlu á sinni sérstöku sýn á sér stað í gegnum teikningu en Erla hefur frá barnsaldri teiknað ýmis þau fyrirbæri sem hún skynjar og sér umfram okkur hin.
Kjarni sýningarinnar er sterk löngun Erlu til að miðla í teikningum þeirri fegurð, krafti, von og víddum, sem hún skynjar en fæst okkar munum upplifa í þessu jarðlífi.
Teikningar Erlu skipta hundruðum ef ekki þúsundum og hér er aðeins hluti þeirra sýndur. Verkavalinu ræður áhugi á að skoða myndverk hennar út frá forsendum listasögunnar, nánar tiltekið í gegnum tvö af helstu viðfangsefnum listasögunnar; portrett og landslag. Hér má sjá portrett af fjölda fólks, sem leitað hefur til Erlu á andlegri vegferð sinni. Á myndunum sjást hinsvegar hvorki andlit né nein af þeim líkamseinkennum er sjá má á portrettum alla jafna. Portrett Erlu sýna sjö mismunandi lita- og formsamsetningar á orkubliki eða áru hvers einstaklings. Árurnar eru jafn ólíkar og fyrirmyndirnar eru margar. Þannig sér Erla hvern einstakling og allar aðrar lifandi verur umluktar undursamlega fallegum litum. Reyndar sér hún einnig byggingar umluktar litum, svo sem sjá má í teikningum hennar af hugformum bygginga.
Landslagið í myndverkum Erlu birtist í sýn hennar á fjalllendi Íslands en yfir fjöllunum breiða fjalladísir út faðm sinn, ólíkar í útliti eftir tengingu hverrar þeirra við orkustöðvar landsins.
Á sýningunni má sjá teikningu Erlu af orkulínum Íslands. Orkulínur lands kalla Kínverjar drekaslóðir, Englendingar leylines og Ástralíubúar sönglínur. Línurnar hefur Erla kortlagt af nákvæmni og miðlað á ýmsum vettvangi. Teikningar hennar og skrif um orkulínur eru hluti af yfirgripsmikilli kortlagningu náttúrutengds vísdóms frá örófi alda er týnist og finnst á víxl eftir tíðarandanum. Þekking Erlu og miðlun á orkulínum á Íslandi eru því mikilvægt framlag til þekkingarnets á heimsvísu.
Margir kannast við textalýsingar og teikningar Erlu af álfum, huldufólki og heimkynnum þeirra. Þótt verurnar séu flestum okkar huldar eru þær þó stór hluti af menningu okkar, jafnt í sagnafortíð okkar og í lýsingum ferðamálafrömuða samtímans á sjálfsmynd álfaelskandi þjóðar. Færri þekkja þó merkilegt framlag Erlu á andlega sviðinu en hún hefur alla tíð miðlað af fróðleik um andleg fræði allra (heims)álfa.
Hafi maður séð teikningar Erlu af fjalladísunum, þá má vel vera að þær fari að birtast manni þegar litið er til fjalla. Sjáið þið til dæmis þessa yfir Keili?
Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri
Skynjun mín
Erla Stefánsdóttir