Þann 12. ágúst 1989 var opnuð sýning á myndlist frá Moldavíu í tilefni af Sovéskum dögum MÍR, félags um Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna. Dagarnir voru að þessu sinni helgaðir kynningu á þjóðlífi og menningu moldavíska sovétlýðveldisins.
Á sýningunni voru 39 verk af ýmsu tagi, 12 olíumálverk, 12 svartlistarverk og 15 listmunir, aðallega ofin teppi og klæði, svo og kvenbúningur og þjóðlegur moldavískur fatnaður. Verkin á sýningunni voru valin úr málverkageymslum Ríkislistasafnsins í Moldavíu og var ætlað að gefa nokkra hugmynd um færni málara og listamanna í landinu, auk þess að gefa Íslendingum, sem hefðu áhuga á menningu Moldavíu, tækifæri til að sjá örlítið brot af málverkum, svartlistarverkum og þjóðlegri list.
Rætur moldavískrar myndlistar má rekja aftur í forna tíma. Við fornleifauppgröft hafa fundist leirskálar, skartgripir, freskumálverk og slitur úr handritum, sem bera því vitni að þegar á fyrstu öld eftir Krist hafði handverkslist þess fólks, sem byggði þetta land, komist á hátt stig. Það var þó ekki fyrr en á nítjándu öld sem myndlistin varð atvinnugrein þegar fyrsti myndlistarskólinn hóf störf á þessum slóðum.
Þjóðleg list og listiðn skipar einnig verðugt sæti í menningu moldavísku þjóðarinnar. Hefðir í skreytilist og listiðn eru aldagamlar en vefnaður er ein elsta grein þjóðlegrar listar. Á sýningunni gafst gestum tækifæri til að skoða moldavískar gólfábreiður, heimaofin handklæði og hluta úr moldavíska þjóðbúningnum, sem gefur hugmynd um klæðaburð kvenna í Moldavíu á nítjándu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu.
Sovéskir dagar stóðu yfir frá ágúst til september en þeir opnuðu formlega þann 21. ágúst með tónleikum listafólks frá Moldavíu í Hafnarborg. Þar komu fram Kammersveit Ríkisútvarps Moldavíu, undir stjórn Aleksandr Samúile, þáverandi listræns stjórnanda og aðalhljómsveitarstjóra Ríkisóperu- og ballettleikhússins í Kishinjov, höfuðborg Moldavíu, og tveir óperusöngvarar frá Sovétríkjunum, María Bieshu, sópran, og Mikhaíl Múntjan, tenór, sem bæði höfðu hlotið æðstu viðurkenningu sovéskra listamanna.