Ljósbrot, ljósmyndafélag framhaldsskólanema, stóð fyrir ljósmyndasýningu sem opnaði í Hafnarborg þann 4. febrúar 1989. Um þessar mundir var ljósmyndaáhugi framhaldsskólanema í örum vexti og þá skóla sem ekki voru með ljósmyndaklúbb mátti telja á fingrum annarrar handar. Á sýningunni var 131 mynd eftir ungt fólk úr 10 framhaldsskólum af landinu.
Þeir skólar sem áttu fulltrúa á sýningunni voru Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Verzlunarskóli Íslands, Flensborgarskólinn, Menntaskólinn við Sund, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Menntaskólinn í Kópavogi.
Ljósbrot, ljósmyndafélag framhaldsskólanema, var stofnað þann 1. febrúar 1987, í kjölfar tveggja fyrri sýninga. Markmið félagsins var að sjá um að halda sýningar sem þessa og auka samstarf ljósmyndaklúbba framhaldsskólanna á ýmsum öðrum sviðum. Framkvæmdanefnd Ljósbrots á tíma sýningarinnar skipuðu þeir Jón Friðgeir Þórisson og Sveinbjörn Berentsson.