Grímur Marinó Steindórsson (1933-2019) sýndi fjölda verka sem unnin voru í ýmsa málma, bæði veggmyndir og skúlptúra. Einnig sýndi Grímur í fyrsta sinn klippimyndir.
Grímur fékkst við myndlist frá unga aldri. Hann stundaði nám við Myndlistarskólann í Reykjavík um tveggja ára skeið og naut þar tilsagnar Ásmundar Sveinssonar, Þorvaldar Skúlasonar, Kjartans Guðjónssonar og fleiri. Hann vann að myndlistinni samhliða ýmsum öðrum störfum, bæði til sjós og lands.
Grímur hélt fjölda einkasýninga og tók einnig þátt í samsýningum, m.a. með félögum sínum í Myndhöggvarafélaginu, auk þess sem hann tók þátt í samkeppnum um gerð listaverka. Þá hlaut hann til að mynda fyrstu verðlaun í samkeppni ferðamálanefndar Reykjavíkur um minjagrip í tilefni af leiðtogafundinum í Reykjavík 1986.