Þriðjudaginn 3. október kl. 12 er komið að tenórnum Gunnari Guðbjörnssyni að stíga á stokk í Hafnarborg. Þar mun hann ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara flytja nokkrar leikandi léttar óperettur fyrir gesti hádegistónleikanna. Yfirskrift tónleikanna er Vín, vinir og vandræði.
Gunnar Guðbjörnsson hóf söngnám í tónlistarskóla Garðabæjar árið 1984 og lauk síðar burtfararprófi í Nýja Tónlistarskólanum árið 1987. Gunnar hélt til Austur-Berlínar í framhaldsnám þar sem hann lærði hjá Frau Hanne-Lore Kuhse og síðar Michael Rhodes í Þýskalandi. Strax að loknu námi var hann ráðinn sem lýristkur tenór til Ríkisóperunnar í Wiesbaden. Á árunum 1995-97 var hann svo fyrsti lýriski tenór Þjóðaróperunnar í Lyon í Frakklandi. Gunnar hefur sungið í fjölda óperuhúsa um allan heim og er hlutverkaskráin fjölbreytt. Hann hefur sungið öll helstu aðalhlutverkin í óperum Mozarts, Almaviva í Rakaranum frá Sevilla, Stýrimanninn í Hollendingnum fljúgandi og Rodolfo í La Boheme til að nefna aðeins örfá. Í september 2007 þreytti Gunnar frumraun sína í hlutverki hetjutenórs þegar hann söng Walther von Stolzing í óperunni Meistarasöngvarnir frá Nurnberg í óperuhúsinu í Halla í Þýskalandi. Gunnar lauk meistaraprófi sínu í Menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst vorið 2012 og starfar nú sem skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.