Rúnar Óskarsson klarínettuleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir pianóleikari halda tónleika í Hafnarborg í Hafnarfirði miðvikudaginn 20. maí kl. 20. Á efnisskránni eru Þrjár fantasíur eftir Robert Schumann, Sónata fyrir klarínettu og píanó eftir Francis Poulenc, Fjögur verk eftir Alban Berg og Duo fyrir klarínettu og píanó eftir Norbert Burgmüller.
Þrátt fyrir að verkin fjögur flokkist líklega sem þau þekktustu fyrir þessa hljóðfærasamsetningu eru þau alltof sjaldan flutt og því við hæfi að leyfa þessum eftirlætisverkum að heyrast á fallegu vorkvöldi í frábærum hljómburði Hafnarborgar.
Um efnisskrána
Þýska tónskáldi Robert Schumann (1810-1856) var eitt af höfuðtónskáldum Rómantíska tímabilsins. Drei Fantasiestücke fyrir klarínettu og píanó op. 73 voru samin á einungis tveimur dögum í febrúar 1849. Verkið er upphaflega samið fyrir klarínettu og píanó, en Schumann sagði sjálfur að það væri upplagt að leika það á fiðlu eða selló, og hafa sellóleikarar verið sérstaklega iðnir við að leika það.
Sónata fyrir klarínettu og píanó eftir Francis Poulenc (1899-1963) er eitt af síðustu verkum tónskáldsins, samin árið 1962. Sónatan er tileinkuð minningu gamals vinar Poulenc, Arthur Honegger. Verkið var samið fyrir klarínettuleikarann Benny Goodman og ætluðu þeir Poulenc og Goodman að frumflytja verkið. Áður en til þess kom þá lést Poulenc, en verkið var frumflutt í Carnegie Hall í New York í apríl 1963 af Benny Goodman og Leonard Bernstein.
Alban Berg (1885-1935) var Austurríkismaður, lærlingur Arnolds Schönbergs og skrifaði atónal og 12 tóna tónlist. Verkin fjögur fyrir klarínettu og píanó op. 5 eru stuttar smámyndir, miniatúrar , samin árið 1913 en frumflutt árið 1919.
Norbert Burgmüller (1810-1836) var fæddur í Þýskalandi og lést aðeins 26 ára gamall. Hann var af samferðamönnum sínum talinn sérlega hæfileikaríkt tónskáld og var í hávegum hafður. Haft var eftir Robert Schumann, að næst á eftir ótímabæru láti Franz Schuberts hefði fátt verið hryggilegra en lát Burgmüllers.
Duo op. 15 fyrir klarínettu og píanó var samið árið 1834.
Flytjendur
Rúnar Óskarsson lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1993 þar sem hann naut handleiðslu Sigurðar I. Snorrasonar. Hann stundaði framhaldsnám hjá George Pieterson við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam og lauk prófi frá skólanum1996. Samhliða klarínettunáminu nam hann bassaklarínettuleik hjá Harry Sparnaay og lauk einleikarprófi á bassaklarínettu vorið 1998. Rúnar sótti og tíma hjá Walter Boeykens í Rotterdam.
Hann er fastráðinn klarínettu- og bassaklarínettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, en auk þess hefur hann leikið með ýmsum hópum, t.d. Kammersveit Reykjavíkur, Caput, hljómsveit Íslensku óperunnar og í Þjóðleikhúsinu. Rúnar hefur einnig leikið á fjölmörgun einleiks- og kammertónleikum, kennir við Tónlistarskóla Kópavogs og er stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar.
Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk námi við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1987 sem einleikari og kennari og var Jónas Ingimundarson aðalkennari hennar þar. Framhaldsnám stundaði hún í Vínarborg og Helsinki. Eftir að námi lauk hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammermúsik ýmiskonar og þá ekki hvað minnst með söngvurum. Hún starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og tónlistarskólana í Reykjanesbæ og Kópavogi.