Sunnudaginn 6. september kl. 15 munu sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir ræða við gesti Hafnarborgar um sýninguna Heimurinn án okkar en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2015.
Á sýningunni Heimurinn án okkar verða leiddir saman íslenskir listamenn sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum og varpa ljósi á ákveðna þætti hans hvort sem um er að ræða hið nálæga eða hið fjarlæga, micro eða macro. Þannig eru hinar ýmsu víddir alheimsins afhjúpaðar um leið og leitað er samfellu og heildar.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni tilheyra ólíkum kynslóðum og eru verkin unnin í ýmsa miðla. Þeir eru: Björg Þorsteinsdóttir (1940), Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955), Finnur Jónsson (1892-1993), Gerður Helgadóttir (1928-1975), Marta María Jónsdóttir (1974), Ragnar Már Nikulásson (1985), Steina (1940) og Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937).
Aðalheiður Valgeirsdóttir útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Ísland 1982. Hún lauk BA prófi í listfræði frá HÍ 2011 og MA prófi í sömu grein árið 2014. Í lokaritgerð sinni til MA prófs sem ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld, fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því í listsköpun sinni og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla. Í upphafi myndlistarferils síns lagði Aðalheiður áherslu á grafík og teikningar en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Hún starfar nú bæði sem myndlistamaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur.
Aldís Arnardóttir útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði árið 2012. Í lokaverkefni sínu til MA prófs fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980, aðdraganda hennar og upphaf landlistar á Íslandi. Í störfum sínum sem sjálfstætt starfandi listfræðingur hefur Aldís aðallega fengist við rannsóknarverkefni og skrif og hefur hún gert sýningartexta fyrir bæði listamenn og gallerí. Hún hélt einnig fyrirlestur um sýninguna Fletir í Arion banka, fyrr á þessu ári. Aldís sat einnig í ritstjórn og skrifaði greinar fyrir Sirkústjaldið, vefrit rekið af MA–nemum í menningar greinum við íslensku- og menningardeild HÍ.
Nánar um sýninguna hér.