Næstu helgi er komið að lokum haustsýningar Hafnarborgar, Allt á sama tíma, en af því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 20. október kl. 14 með sýningarstjórunum Andreu Arnarsdóttur og Starkaði Sigurðarsyni, ásamt forstöðumanni Hafnarborgar, Ágústu Kristófersdóttur.
Hugmyndin með sýningunni er að kanna hvernig listamenn takast á við það frelsi sem finnst í myndlist í dag. Hvernig hægt er að búa til merkingu úr list sem getur verið hvað sem er, málverk, barnaleikfang, pappamassi, hreyfing, hugmynd, ópera, gifs. Sýnd eru verk í ólíkum miðlum, frá olíumálverki til gjörninga, og gerð tilraun til að sameina þær dreifðu hugmyndir sem finnast í myndlist samtímans.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Auður Lóa Guðnadóttir, Baldvin Einarsson, Bára Bjarnadóttir, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Gyða Sveinsdóttir, Steingrímur Gauti Ingólfsson og Valgerður Sigurðardóttir.
Aðgangur ókeypis, heitt á könnunni og allir velkomnir. Einnig er bent á að bók sem gefin var út í tengslum við sýninguna er fáanleg í safnbúð Hafnarborgar.