Vík Prjónsdóttir á stefnumót við gesti Hafnarborgar á vetrarsólstöðum sunnudaginn 21. desember frá kl. 12 til 14. Þá mun hönnunarteymið kynna vörur sínar með sérstakri áherslu á nýútkomna línu af húfum sem þær nefna Sólhatta og hafa hannað fyrir hvern mánuð ársins.
Húfurnar eru prjónaðar úr 100% enskri lamba ull í þýskri prjónaverksmiðju sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá stofnun hennar árið 1871. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem Vík Prjónsdóttir framleiðir vörur sínar erlendis en með því leitast hún við að kanna nýjar slóðir og fá tækifæri til þess að vinna með nýjustu tækni í prjóni með annars konar og mýkri ull. Húfurnar eru prjónaðar í sniði og koma því næstum tilbúnar úr vélinni. Allur annar frágangur er gerður í höndunum.
Á sunnudaginn verða fyrstu fjórir hattarnir til sýnis; maí, júní, júlí og ágúst en innblástur þeirra er sóttur í íslensku miðnætursólina og þá mögnuðu liti sem birtast okkur þegar dagur og nótt renna saman. Íslendingar nota húfur nánast allt árið um kring og hér á norðurslóðum getur góð ullarhúfa verið alveg jafn mikilvæg og stráhatturinn er á suðlægari slóðum. Nú þegar dimmasti tími ársins er genginn í garð er því ekki úr vegi að setja upp sólhattana og minnast birtu og hlýju sólarinnar sem hækkar senn á lofti.
Vík Prjónsdóttir er samstarfsverkefni og fyrirtæki hönnuðanna þriggja; Brynhildar Pálsdóttur, Guðfinnu Mjallar Magnúsdóttur og Þuríðar Rósar Sigurþórsdóttur og hefur verið starfsrækt frá árinu 2005. Hún er heilluð af sagnahefð, innblásin af hegðun náttúrunnar og nið borgarinnar. Hún trúir á hið yfirnáttúrulega og ber virðingu fyrir því ósýnilega. Vík Prjónsdóttir hefur einbeitt sé að því að vinna með staðbundna menningu, hráefni og framleiðslu.