Sunnudaginn 6. október kl. 15 býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi listasmiðju í tengslum við haustsýningu safnsins, Allt á sama tíma, sem fagnar því frelsi sem finnst í myndlist í dag. Myndlistarmaðurinn Rúnar Örn Marinósson mun hafa umsjón með smiðjunni en Rúnar er einn þeirra sjö listamanna sem eiga verk á sýningunni. Í smiðjunni verður unnið á skapandi hátt með leik, leikföng og leikgleði.
Eru leikföngin okkar bara leikföng? Hvað eru leikföng? Geta þau ekki verið hvað sem er? Komið hvaðan sem er? Geta þau ekki líka verið hvað sem við ímyndum okkur? Eru þau kannski aðalpersónur og leikmunir ævintýris sem býr innra með okkur?
Í smiðjunni ætlum við að skoða nokkur leikföng og hluti og reyna að finna í sameiningu alla þá möguleika sem þau hafa upp á að bjóða eða við getum búið til, allan tilgang, allar sögur og öll hlutverk.
Þátttakendur eru hvattir til þess að hafa með sér leikfang eða hlut en þess þarf þó alls ekki, þar sem nóg verður um þau á staðnum. Eins og venjulega er þátttaka í smiðjunni gestum að kostnaðarlausu, auk þess sem ókeypis aðgangur er að sýningum safnsins. Smiðjan mun fara fram í Apótekssalnum á fyrstu hæð Hafnarborgar.