Miðvikudaginn 22. febrúar kl. 14 bjóðum við gesti velkomna á næsta viðburð Sjónarhorna, fræðslustunda fyrir eldra fólk, í Hafnarborg. Þá mun sérfræðingur safnsins spjalla um sýninguna Glettu, þar sem sjá má úrval verka eftir listakonuna Sóleyju Eiríksdóttur (1957-1994): jafnt skúlptúra, leirmuni og tvívíð verk.
Í upphafi ferils síns vann Sóley að mestu hefðbundna leirmuni, sem telja má til nytjalistar, en á síðari hluta níunda áratugarins öðlast teikningar og myndefni sem áður hafði prýtt skálar og ker listakonunnar sjálfstætt líf í stærri, þrívíðum verkum úr steinsteypu.
Sjónarhorn er dagskrá sem hófst í Hafnarborg vorið 2022 en safnið leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Er markmiðið að gefa innsýn í starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign með mánaðarlegum viðburðum yfir vetrartímann. Boðið er upp á kaffi og meðlæti að lokinni dagskrá.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.
Dagskráin framundan
22. mars kl. 14
Verk úr safneign
19. apríl kl. 14
Leiðsögn um sýninguna Ósýndarheima
17. maí kl. 14
Ritaðar myndir og texti í myndlist