Þýsk-íslenski saxófónleikarinn Stefan Karl Schmid og hinn alíslenski vopnabróðir hans, Sigurður Flosason, standa saman að kvintett sem mun leika síðdegisdjass í Hafnarborg föstudaginn 24. september kl. 18. Þá leikur Andrés Þór á gítar, Nico Moreaux á kontrabassa og Einar Scheving á trommur. Flutt verður tónlist eftir saxófónleikarana sjálfa, auk þekktra djassslagara.
Þetta eru fyrstu tónleikar tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg á þessum vetri en tónleikaröðin vakti mikla athygli síðastliðinn vetur, hlaut til að mynda tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna, í flokki djass- og blústónlistar, og auðgaði flóruna í menningarlífi Hafnarfjarðar. Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.
Aðgangur er ókeypis en vegna gildandi samkomutakmarkana skulu gestir sitja í númeruðum sætum, auk þess sem skrá skal upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer viðstaddra. Eru gestir því beðnir um að taka frá sæti í síma 585 5790 á opnunartíma safnsins. Grímuskylda er á tónleikunum.