Föstudaginn 18. nóvember kl. 18 mun söngkonan Margrét Eir koma fram ásamt hljómsveit á þriðju tónleikum Síðdegistóna í Hafnarborg á þessum vetri. Þá koma fram auk Margrétar þau Karl Olgeir Olgeirsson á Hammond-orgel, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á trommur og Andrés Þór á gítar. Á efniskránni verður blúsaður djass og djassað popp í vetrarlegum búningi.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.
Margrét Eir hefur starfað sem söng- og leikkona í rúm 25 ár. Hún lauk námi í í leiklist frá Emerson College í Boston árið 1998 og útskrifaðist frá Raddskóla Kristin Linklater í New York árið 2007. Margrét hefur starfað sem sólóisti og bakraddasöngvari með helstu tónlistarmönnum landsins, bæði í upptökum og á tónleikum. Hún hefur gefið út þrjár sólóplötur og vinnur nú að þriðju plötu hljómsveitarinnar Thin Jim sem hún stofnaði ásamt Jökli Jörgensen. Fjórða plata hennar, MoR Duran, var dúettaverkefni og hlaut platan mikla athygli í Bandaríkjunum og Kanada. Hún hefur þrisvar sungið sem sólóisti með Sinfóníuhljómsveit Íslands, var ein af aðalsöngkonum Frostrósa og margsinnis sólóisti á stórtónleikum á vegum Rigg viðburða. Hún heldur árlega sína eigin jólatónleika í Reykjavík og víðs vegar um landið en upptökur eru fyrirhugaðar á efniskrá þeirra tónleika í byrjun næsta árs. Margrét hefur starfað á öllum stærstu leiksviðum landsins og hefur þar leikið og sungið í sumum af vinsælustu söngleikjauppfærslum sem settar hafa verið á svið á Íslandi. Má þar nefna Hárið, Mary Poppins og Vesalingana
Karl Olgeir Olgeirsson hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi sem lagahöfundur, söngvari og hljóðfæraleikari. Píanóið er aðalhljóðfæri hans en hann leikur á fjölmörg önnur hljóðfæri. Karl hefur meðal annars samið tónlist fyrir kvikmyndir og starfað við hljóðstjórn og útsetningar. Hann kemur reglulega fram með djasstríóum sínum Hot Eskimos og Karl Orgeltríó. Þá var hann tónlistarstjóri spunahópsins Improv Iceland. Hann var sömuleiðis tónlistarstjóri og útsetjari fyrir Frostrósir um ellefu ára skeið og sá um kórútsetningar fyrir hljómplötu Bjarkar Medúllu. Karl var tilnefndur til þriggja verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 og hlaut tvenn, fyrir djassplötu ársins og sem lagahöfundur ársins í djassflokki fyrir plötu sína Mitt bláa hjarta.
Sólrún Mjöll Kjartansdóttir, trommuleikari, hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Flott, gugusar, Röggu Gísla, Hipsumhaps, Ceasetone, Rakel og Bubba Morthens. Þá var hún í húsbandinu í sjónvarpsþáttunum Glaumbæ og hefur einnig unnið í afleysingum í leiksýningunni 9 líf í Borgarleikhúsinu. Sólrún er útskrifuð úr FÍH þar sem hún lærði undir handleiðslu Matthíasar Hemstock og Einars Scheving.
Andrés Þór er einn af fremstu djassgítarleikurum landsins og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bæði tónsmíðar og plötuútgáfu. Hann spilar reglulega í leiksýningum og setur upp fjölda tónleika hér á landi með eigin hljómsveitum og í samstarfi. Andrés Þór er jafnframt listrænn stjórnandi og stofnandi Síðdegistóna í Hafnarborg en tónleikaröðin hóf göngu sína í safninu árið 2020.