Næstu tónleikar Síðdegistóna í Hafnarborg fara fram föstudaginn 4. júní kl. 18:00. Þá koma saman söngkonan Margrét Eir fram ásamt þeim Andrési Þór á gítar, Jóni Rafnssyni á kontrabassa og Jóhanni Hjörleifssyni á trommur. Á boðstólum verður jazzskotin efnisskrá sem samanstendur af tónlist úr söngleikjum, klassískum kvikmyndum og sitthvað fleira í útsetningum hljómsveitarinnar. Tónleikarnir eru áttundu tónleikar tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg og jafnframt þeir síðustu á þessum vetri.
Margrét Eir hefur starfað sem söng- og leikkona í rúm 25 ár. Hún lauk námi í í leiklist frá Emerson College í Boston áríð 1998 og útskrifaðist frá Raddskóla Kristin Linklater í New York árið 2007. Margrét hefur starfað sem sólisti og bakraddasöngvari með helstu tónlistarmönnum landsins bæði í upptökum og á tónleikum. Hún hefur gefið út þrjár sólóplötur og vinnur nú að þriðju plötu hljómsveitarinnar Thin Jim sem hún stofnaði ásamt Jökli Jörgensen. Fjórða plata hennar, MoR Duran, var dúettaverkefni og hlaut platan mikla athygli í Bandaríkjunum og Kanada. Hún hefur þrisvar sungið sem sólisti með Sinfóníuhljómsveit Íslands, var ein af aðalsöngkonum Frostrósa og margsinnis sólisti á stórtónleikum á vegum Rigg viðburða. Hún heldur árlega sína eigin jólatónleika í Reykjavík og víðsvegar um landið en upptökur eru fyrirhugaðar á efniskrá þeirra tónleika í byrjun næsta árs. Margrét hefur starfað á öllum stærstu leiksviðum landsins og hefur þar leikið og sungið í sumum af vinsælustu söngleikjauppfærslum sem settar hafa verið á svið á Íslandi. Má þar nefna Hárið, Mary Poppins og Vesalingana
Andrés Þór er einn fremsti djassgítarleikari landsins og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bæði tónsmíðar og plötuútgáfu. Hann spilar reglulega í leiksýningum og setur upp fjölda tónleika hér á landi með eigin hljómsveitum og í samstarfi.
Jón Rafnsson er gríðarlega afkastamikill og farsæll hljóðfæraleikari og plötuútgefandi. Meðal verkefna hans má nefna tríóin Guitar Islancio, Hot Eskimos og Delizie Italiane.
Jóhann Hjörleifsson nam trommu- og slagverksleik við tónlistarskóla FÍH og hefur auk þess sótt einkatíma og námskeið bæði hér heima og erlendis. Jóhann hefur verið starfandi tónlistarmaður frá árinu 1989 og hefur deilt tíma sínum jafnt á milli þess að vinna við hljóðfæraleik á hljómplötum, í leikhúsum og við lifandi flutning á öllum sviðum tónlistar. Jóhann er fastur meðlimur í Stórsveit Reykjavíkur, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar og Blúsmönnum Andreu.
Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistasjóði og Hafnarfjarðarbæ.