Föstudaginn 8. mars kl. 18 mun kvartett danska trommuleikarans Ulrik Bisgaard og íslenska saxófónleikarans Ólafs Jónssonar koma fram á næstu Síðdegistónum í Hafnarborg en þeir Ulrik og Ólafur hafa starfað töluvert saman á undanförnum árum og leikið á fjölmörgum tónleikum í Danmörku.
Ulrik er fjölhæfur trommuleikari á dönsku djasssenununni með melódíska nálgun á trommusettið, mjúkan blæ og harða sveiflu. Undanfarin ár hefur Ulrik svo unnið í nokkrum verkefnum á sviði heimstónlistar þar sem hann sameinar norræna tjáningu með innblæstri frá argentínskum tangó. Þá hefur hann mikla unun af því að spila lög úr hinni svokölluðu amerísku söngbók.
Ásamt þeim koma fram þeir Eyþór Gunnarsson, píanóleikari, og Þorgrímur Jónsson, bassaleikari. Efnisskrá tónleikanna verður að mestu byggð á frumsaminni tónlist ásamt fallegum dönskum og íslenskum þjóðlögum sem þeir félagar hafa sett í nýjan búning af þessu tilefni.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ, Tónlistarsjóði Rannís og Menningarsjóði FÍH.