Dagur hinna dauðu eða Allra heilagra messa er haldinn hátíðlegur í Mexíkó ár hvert. Þetta er litrík hátíð sem er tileinkuð hringrás lífsins. Menn heiðra forfeður sína með því að útbúa altari eða ofrenda hlaðið skrauti og mat, fjölskyldur og vinir koma saman og eiga góðar stundir með mat og tónlist. Gerð altarisins er viðburður í sjálfu sér, margir leggjast á eitt og efniviðurinn getur verið margvíslegur en útkoman oft hlaðin og dulúðug og er hugmyndin sú að tengja saman heim lifenda og dauðra.
Í næstu viku munu Mexíkósku listamennirnir Diego Narvaez og Laura Chenillo sem nú dvelja í gestavinnustofu Hafnarborgar leiða listsmiðju þar sem markmiðið er að skapa saman ofrenda í tilefni Dia de los Muertos þann 1. nóvember. Hér er á ferðinni frábært tækifæri til að eiga skapandi stundir og fræðast í leiðinni um þessa gömlu hefð.
Um er að ræða opna smiðju þar sem þátttakendur taka þátt í skapandi ferli í félagsskap frábærra listamanna frá Mexíkó. Smiðjan fer fram fimmtudag og föstudag 3o. og 31. október frá kl. 18-21 og laugardag 1. nóvember frá kl. 12-18. Afrakstur smiðjunnar verður síðan til sýnis í Apótekarsal Hafnarborgar (gengið inn frá Strandgötu) frá kl. 18-21 á laugardagskvöldið.
Ýmiss efniviður stendur þátttakendum til boða en fólk er jafnframt hvatt til þess að koma sjálft með efni sem hentar s.s. kerti, krukkur, skraut, pappír, liti og myndir af forfeðrum sínum til að vinna með.
Hafnarfjarðarbær ætlar að halda uppá Hrekkjavöku og breyta miðbænum í draugabæ frá miðvikudeginum 29. október til sunnudagsins 2. nóvember. Ýmsar uppákomur verða á dagskrá í bænum og upplagt að flétta viðburði bæjarins inn með Ofrenda-smiðju Hafnarborgar.
Frekari upplýsingar veitir Sigrún Guðmundsdóttir, umsjónarmaður gestavinnustofu. [email protected]
S: 585 5790