Í sumar er boðið uppá kvöldgöngur í Hafnarfirði með leiðsögn alla fimmtudaga kl. 20. Miðað er við að þær taki um klukkustund og séu við allra hæfi. Þátttaka er ókeypis.
Fimmtudagskvöldið 9. júlí kl. 20 verður gengið um slóðir myndlistarkonunnar Hönnu Davíðsson sem hóf búskap sinn í Sívertsens-húsi árið 1912. Húsið sem telst vera elsta hús bæjarins er nú hluti af Byggðasafni Hafnarfjarðar. Sagt verður frá þeim stöðum sem veittu Hönnu innblástur í myndlistinni og lýkur göngunni með heimsókn í Fríkirkjuna í Hafnarfirði en verk Hönnu skipa sérstakan sess í kirkjunni.
Gengið verður frá Pakkhúsi Byggðasafns Hafnarfjarðar á Vesturgötu 6.
Ólöf K. Sigurðardóttir forstöðumaður Hafnarborgar leiðir gönguna ásamt Huldu Cathincu Guðmundsdóttur dótturdóttur Hönnu. Ólöf vann að sýningu á verkum Hönnu sem sett var upp í Hafnarborg í byrjun árs og vakti athygli á verkum þessarar einlægu listakonu sem starfaði í Hafnarfirði allt sitt líf.