Miðvikudaginn 14. júlí kl. 20 munu Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, og Björn Pétursson, forstöðumaður Byggðasafns Hafnarfjarðar, leiða göngu þar sem saga Hafnarfjarðar verður sögð út frá útilistaverkum bæjarins. Gangan hefst í Hellisgerði og endar við Reykdalsstíflu og tekur um eina og hálfa klukkustund. Fyrir áhugasama er bent á að finna má gagnvirkt kort af öllum útilistaverkum bæjarins á sérstökum vef Hafnarborgar, utilistaverk.hafnarborg.is.
Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Í sumar er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld kl. 20. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.