Í tengslum við sýninguna Málverk – ekki miðill sem nú stendur yfir í Hafnarborg verður efnt til málþings í húsakynnum safnsins fimmtudagskvöldið 14. september kl. 20. Þar verður viðfangsefnum sýningarinnar gerð skil með þátttöku fræðimanna og listamanna sem taka þátt í sýningunni.
Sýningin fjallar um málverkið og forsendur þess í því eftir-miðla umhverfi sem einkennir list samtímans. Er hún tækifæri til að hugsa um þá hugmynd að málverk verði best skilið sem eitthvað annað en sá miðill sem listamaðurinn velur sér að vinna í.
Sýningarstjóri er Jóhannes Dagsson en hugmynd hans að sýningunni var valin úr innsendum sýningartillögum síðastliðið haust þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu ársins 2017 í Hafnarborg.
Þátttakendur málþingsins eru:
Jóhannes Dagsson, sýningarstjóri, listheimspekingur og lektor við Listaháskóla Íslands,
Fritz Hendrik Berndsen, listamaður og þátttakandi í sýningunni,
Hulda Stefánsdóttir, listamaður og þátttakandi í sýningunni, og
Þorgerður Þórhallsdóttir, listamaður og þátttakandi í sýningunni.