Sunnudaginn 28. febrúar kl. 14 mun Ragnhildur Jóhanns myndlistamaður ræða við gesti Hafnarborgar um verk sín og sýninguna Diktur sem nú stendur yfir í Sverrissal.
Ragnhildur leggur áherslu á tungumálið í listsköpun sinni þar sem hún leitast við að skapa sjónræn ljóð í formi skúlptúra, klippimynda, teikningar eða prents svo dæmi séu tekin.
Ragnhildur Jóhanns (f.1977) býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún situr í stjórn Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn, útgáfu bókverka auk þess sem hún er ritstjóri tímaritsins Endemi.