Sunnudaginn 19. október kl. 15 verður listamannsspjall þar sem Ívar Valgarðsson myndlistarmaður tekur þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um verk sín á sýningunni Rás í Hafnarborg á síðasta sýningardegi.
Ívar Valgarðsson hefur lengi verið í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna eða allt frá því hann lauk framhaldsnámi í Hollandi árið 1979. Verk hans hafa víða verið sýnd og eru í eigu margra safna og safnara bæði hér heima og erlendis. Hann á að baki á annan tug einkasýninga og fjölda samsýninga meðal annars í Listasafni Íslands og umdeilda sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1991. Verk Ívars endurspegla áhuga hans á þeim sköpunarkrafti sem á sér stað í mótun og uppbyggingu manngerðs umhverfis. Verk hans á sýningunni Rás eru unnin inn í sýningarsal Hafnarborgar, þar sem efni og form kallast á við arkitektúr hússins.