Sunnudaginn 28. febrúar kl. 20 verða þriðju tónleikar vetrarins í tónleikaröðinni Hljóðön haldnir í Hafnarborg. Tónleikarnir bera yfirskriftina Þema án tilbrigða en þá koma fram Aladár Rácz, píanóleikari, Ármann Helgason, klarínettuleikari og Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir sellóleikari. Á efnisskrá eru verk eftir Toshio Hosokawa (f. 1955) og eldri tónskáld eins og Þorkell Sigurbjörnsson, Per Nørgaard og Robert Muczynski sem allir mótuðu sína listrænu sýn á umbrotatímum um miðja 20 öldina. Þetta var tími áleitinna spurninga um hlutverk og merkingu lista í samfélaginu og fara tónskáldin ólíkar leiðir í persónulegri tjáningu og sköpun; óendanlegar laglínur, glettni með tilbrigðalausum þemum og skil á milli hljóðs og þagnar eru könnuð.
Aladár Rácz, píanóleikari, hefur leikið á tónleikum víðsvegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum. Hér á landi hefur hann komið fram sem einleikari m.a. í Salnum í Kópavogi sem og með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Fyrir nokkrum árum lék Aladár Goldberg-tilbrigðin eftir J.S. Bach á tónleikum víðsvegar um landið.
Ármann Helgason, klarinettuleikari, hefur átt fjölbreyttan feril sem einleikari, kammermúsíkant og hljómsveitarspilari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómsveit íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, kammerhópnum Camerarctica, Caput og fleiri hópum. Ármann var valinn bæjar- listamaður Garðabæjar árið 1997 og hlaut TónVakaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1995 og kom þá fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir, sellóleikari, hefur í gegnum árin frumflutt fjölda verka eftir Kristian Blak, Sunleif Rasmussen, Staffan Storm og Hafliða Hallgrímsson auk fjölda annarra, mest sem einleikari en einnig í strengjadúóinu Duo Rima. Þess utan hefur hún flutt mikið af ísraelskum klassískum verkum í samvinnu við þýska píanóleikarann Julian Riem. Gunnhildur hefur starfað með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Gävle Symfoniorkester, Uppsala kammerorkester og Camerata Upsaliae.
Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings Mennta- og Menningarmálaráðuneytis.
Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg, s. 585 5790. Almennt miðaverð kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.