Sunnudaginn 16. október kl. 20 hefst fjórða starfsár tónleikaraðarinnar Hljóðön í Hafnarborg en þá koma fram Frank Aarnink, slagverksleikari, og Laufey Jensdóttir, fiðluleikari. Á tónleikunum verða flutt tónverk sem virkja og nýta tónleikarýmið til hins ýtrasta er flytjendurnir ferðast um rýmið en öll hverfast verkin um líkamann á einn eða annann hátt. Höfundar á borð við Morton Feldman og Albert Schnelzer eiga verk á efnisskránni sem og Tom Johnson höfundur verksins Níu bjöllur sem er jafnframt yfirskrift tónleikanna. Frumflutt verður nýtt verk eftir Sigrúnu Jónsdóttur en það er samið fyrir fiðlu, slagverk og rafhljóð.
Frank Aarnink (f. 1970), slagverksleikari, stundaði nám í leik á slagverk í Hilversum sem og Amsterdam í Hollandi. Sem flytjandi hefur hann komið fram með mörgum af helstu sinfóníuhljómsveitum Hollands og hefu einnig tekið þátt í fjölda óperu- og söngleikjauppfærslum þar í landi. Frá árinu 2001 hefur Frank verið fastráðinn sem slagverks- og pákuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og síðan þá tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi með ólíkum flytjendahópum og starfað náið með hérlendum tónskáldum að flutningi verka þeirra. Þá helst sem annar helmingur tvíeykisins, Duo Harpverk, sem skipað er honum og Katie Buckley hörpuleikara, sem hefur allt frá árinu 2007 pantað hátt upp í 70 ný verk fyrir hörpu og Slagverk og flutt víða um heim.
Laufey Jensdóttir (f. 1985), fiðluleikari, hóf nám á fiðlu fjögurra ára gömul við Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins og síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þá fluttist hún til Hollands árið 2006 og nam þar fiðluleik við tónlistarháskólann í Utrecht hjá þeim Eevu Koskinen og Elisabeth Perry. Laufey hefur starfað með ólíkum tónlistarhópum hérlendis og erlendis og hefur reglulega komið fram bæði sem einleikari og kammermússíkant á hinum ýmsu tónleikum og tónlistarhátíðum. Hefur hún frá árinu 2014 verði lausráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og frá árinu 2013 leikið með Kammersveit Reykjavíkur. Laufey er einn stofnmeðlima Strengjasveitarinnar Skark og jafnframt er Laufey einn stofnenda Barokksveitarinnar Brákar sem sérhæfir sig í upprunaflutningi og hefur verið starfrækt frá árinu 2015. Þá hefur Laufey leikið inn á ýmsar upptökur með íslenskum listamönnum á borð við Hjaltalín, Múm, Björk og Sinófníuhljómsveit Íslands.
Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtur stuðnings Mennta- og Menningarmálaráðuneytis.
Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg, s. 585 5790. Almennt miðaverð kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.