Sunnudaginn 24. apríl kl. 20 lýkur þriðja starfsári Hljóðön í Hafnarborg með einleikstónleikum Ingólfs Vilhjálmssonar, klarínettuleikara þar sem hann mun leika á kontrabassaklarínett. Áhorfendum gefst hér afar sjaldgæft færi á að kynnast hljóðheimi þessa sérstaka hljóðfæris í verkum höfunda á borð við Franco Donatoni, Mark Andre og Gérard Grisey. Auk þeirra frumflytur Ingólfur nýtt verk eftir Einar Torfa Einarsson.
Ingólfur Vilhjálmsson, klarínettuleikari, hefur sérhæft sig í flutningi samtímatónlistar og í gegnum árin starfað náið með fjölda höfunda að flutningi verka þeirra, höfunda af sinni eigin kynslóð sem og þekktra tónskálda á borð við Toshio Hosokawa og Helmut Lachenmann. Ingólfur kemur reglulega fram víða um Evrópu á tónleikum og hátíðum sem einleikari og sem meðlimur berlínska Adapter Ensemble.
Ingólfur lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1998, BA-prófi í klarínettuleik frá Konservatoríinu í Utrecht 2000 og Postgraduate-prófi frá Konservatoríinu í Amsterdam 2002 sem og sérhæft sig í bassaklarínettuleik, sem styrkþegi Ensemble Modern Academy 2006-2007.
Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings Mennta- og Menningarmálaráðuneytis.