Þriðjudaginn 1. nóvember kl. 12 mun Rósalind Gísladóttir, sópran/mezzósópran, koma fram á næstu hádegistónleikum vetrarins í Hafnarborg, ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Að þessu sinni bera tónleikarnir yfirskriftina Söngkonan sem kameljón en á efnisskránni eru aríur úr óperum eftir tónskáldin Bizet, Rossini, Mascagni og Verdi.
Rósalind Gísladóttir, sópran/mezzo-sópran, lærði í Söngskólanum í Reykjavík, þar sem Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Kolbrún Sæmundsdóttir voru hennar aðalkennarar. Að loknu námi þar hélt hún til Spánar þar sem hún stundaði söngnám hjá Cristinu Beatriz Carlin í Madríd og Mariu Dolors Aldea í Barcelona. Síðast sótti hún svo tíma hjá Kristjáni Jóhannssyni en auk þess hefur hún farið í einkatíma og sótt masterclass hjá Miguel Zanetti, Janet Williams, David Jones, Martin Isepp, André Orlowitz, Robin Stapleton og Donald Kaash.
Árið 2012 lenti Rósalind í 1. sæti í Barry Alexander Vocal International Competition og var í kjölfarið boðið að syngja í Carnegie Hall í New York. Þá tók hún þátt í gjörningi Ragnars Kjartanssonar á Performa 11 í New York árið 2011 en viðburðurinn var valinn einn af 10 merkilegustu listgjörningum ársins þar ytra og upptaka af atburðinum var síðar sýnd á Listahátíð árið 2012. Rósalind hefur sungið á fjölmörgum tónleikum og sýningum, meðal annars á vegum Óp-hópsins, hádegistónleikum hjá Íslensku óperunni og Hafnarborg, Tíbrá í Salnum, sem og að koma fram erlendis, auk þess sem hún hefur verið í kór Íslensku óperunnar undanfarin ár.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.