Þriðjudaginn 3. nóvember kl. 12 mun Oddur Arnþór Jónsson, barítónsöngvari, koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara. Á tónleikunum, sem bera hið skemmtilega heiti Illmenni og fórnarlömb, munu þau Oddur og Antonía flytja aríur eftir G. Donizetti og Mozart. Um þessar mundir tekur Oddur þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar á Rakaranum frá Sevilla þar sem hannhefur fengið glymrandi góða dóma fyrir hlutverki sitt sem sjálfur Figaro.
Oddur Jónsson stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alex Ashworth og lauk burtfararprófi með ágætiseinkunn. Hann lauk meistaragráðu frá Universität Mozarteum í Salzburg, Austurríki og hlaut Lilli Lehmann-viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf í óperusöng. Kennarar hans við skólann voru Andreas Macco, Martha Sharp, Eike Gramss, Gernot Sahler, Breda Zakotnik og Julia Pujol.
Síðastliðið haust söng hann í fyrsta sinn við Íslensku óperuna, hlutverk Rodrigo í Don Carlo, og var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum. Oddur hefur sungið Greifann í Brúðkaupi Fígarós, Guglielmo í Così fan tutte, Belcore í Ástardrykknum, Orest í Iphigenie auf Tauris eftir C. W. Gluck, Kaiser í Kaiser von Atlantis eftir V. Ullmann, Ned Keene í Peter Grimes og Herald í The Burning Fiery Furnace eftir B. Britten. Sumarið 2013 var Oddur staðgengill fyrir Rodrigo í Don Carlo á tónlistarhátíðinni í Salzburg.
Sem einsöngvari söng Oddur Das Lied von der Erde eftir Mahler í Garnieróperunni í París í ballettuppsetningu John Neumeier. Hann hefur sungið Jesús í Jóhannesarpassíunni, bassahlutverkin í H-moll messunni og Jólaóratóríunni eftir Bach, Solomon eftir Händel, Lieder eines fahrenden Gesellen eftir Mahler. Hann hefur einnig sungið kantötur og messur eftir Telemann, Bach, Händel, Mozart, Haydn og Gounod. Sem ljóðasöngvari hefur hann sungið ljóðaflokka eftir Schubert, Schumann, Brahms og Wolf og flutti Schwanengesang á
Schubert hátíðinni í Vilabertran á Spáni í ágúst síðastliðnum.
Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum keppnum. Hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki; varð þriðji í Schubert-keppninni í Dortmund og þriðji í Musica Sacra-keppninni í Róm. Hann fékk Schubertverðlaunin og verðlaun fyrir besta ljóða- og óratóríuflytjandann í Francesc Viñas-keppninni í Barcelona. Hann söng í úrslitum Belvedere-keppninnar og í alþjóðlegu Mozart-keppninni.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Þriðjudaginn 1. desember munu svo sópran-mæðgurnar Hanna Björk Guðjónsdóttir og Björg Birgisdóttir stíga á stokk syngja okkur inn í desembermánuð.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.