Þriðjudaginn 7. nóvember kl. 12 verðum við í Hafnarborg komin í jólaskap því þá er komið að desembertónleikum hádegistónleikana. Eins og venjan er verður sérstakur jólabragur yfir efnisskránni en í þetta sinn koma fram hjónin Þórunn Marinósdóttir, sópran, og Hlöðver Sigurðsson, tenór og meðlimur Sætabrauðsdrengjanna.
Hlöðver Sigurðsson er fæddur á Siglufirði og hóf söngnám hjá Antoníu Heves árið 1997. Hann lauk 8. stigs prófi frá Tónlistarskóla Siglufjarðar í apríl árið 2001. Veturinn 2001-2002 stundaði Hlöðver framhaldsnám við Guildhall School of Music and Drama í London hjá prof. Rudolf Piernay. Frá 2002-2007 stundaði Hlöðver nám við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg þar sem aðalkennarar hans voru prof. Martha Sharp og prof. Wolfgang Holzmair. Hlöðver stundaði frá árinu 2007-2009 einkanám hjá Kristjáni Jóhannssyni á Ítalíu. Helstu hlutverk Hlöðvers eru Don Ottavio (Don Giovanni), Belfiore (La finta giardiniera), Basilio og Don Curzio (Le nozze di Figaro), einnig Ernesto (Don Pasquale), Alfredo (La Traviata) og Hertoginn (Rigoletto). Hlöðver hefur tekið þátt í fjölmörgum tónleikum meðal annars í Ungverjalandi, Frakklandi, Austurríki og Ítalíu.
Þórunn Marinósdóttir er fædd í Reykjavík. Árið 1997 hóf Þórunn söngnám við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Dóru Reyndal og Kolbrúnar Sæmundsdóttur og lauk þaðan burtfararprófi árið 2002. Frá 2003-2007 stundaði Þórunn framhaldsnám í söng hjá Prof. Martha Sharp, kennara við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg Austurríki. Þórunn stundaði einnig einkanám hjá Kristjáni Jóhannssyni Tenór á Ítalíu frá 2007-2009. Þórunn hefur auk þess sótt master class námskeið hjá Lorraine Nubar í Nice í Frakklandi. Þórunn hefur oft komið fram sem einsöngvari á tónleikum og við ýmis tækifæri á Íslandi, Ítalíu og í Austurrríki.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.