Þriðjudaginn 10 apríl kemur söngkonan Dóra Steinunn Ármannsdóttir fram ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara á hádegistónleikum í Hafnarborg. Dagskráin verður þétt þetta hádegið en þær Dóra og Antonía ætla að flytja fimm aríur úr óperunum Carmen eftir Bizet, Adriana Lecouvreur eftir Cilèa, Samson og Dalila eftir Saint-Saëns og Il Trovatore og Don Carlos eftir G.Verdi. Tónleikarna titla þær Sígaunar og hefðarkonur.
Dóra Steinunn Ármannsdóttir, mezzósópran, stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kolbrúnu Sæmundsdóttur og útskrifaðist með Burtfararpróf með hæstu einkunn. Hún hélt áfram söngnámi við óperudeildina við Universität für Musik und darstellende Kunst í Vínarborg. Dóra Steinunn hefur meðal annars sungið á sviði Íslensku Óperunnar, Sydney óperuhússins og Volksoper Wien. Dóra Steinunn söng Stúlkuna í Stúlkan í vitanum í Íslensku Óperunni, og Elju í Gretti eftir Þorkell Sigurbjörnsson, frumflutt í Þjóðleikhúsinu og Bayreuth Young Artists Festival og Betty Oliphant Theatre í Toronto. Í Sydney söng Dóra Steinunn titilhlutverkið í Carmen, og Hans í Hans og Grétu. Hún söng Red og Mrs. Clay í Cloudstreet, eftir George Palmer. Hún tók þátt í Pacific Opera Young Artists Program. Við hlið einsöngsferilsins söng Dóra Steinunn með óperukór Opera Australia við Sydney óperuhúsið og Arts Center Melbourne. Í Sydney Eisteddfod keppnunum vann Dóra Steinunn The Evelyn Hall de Izal Mezzo-Soprano Award, fyrsta sætið í Opera Awards og fyrsta sæti í Event 15 (Folk Song).