Elmar Gilbertsson tenór kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 2. september kl. 12 ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Tónleikarnir eru þeir fyrstu í hádegistónleikaröð Hafnarborgar veturinn 2014 – 2015, en komið er að tólfta starfsvetri tónleikaraðarinnar.
Elmar Gilbertsson tenór nam söng við söngskóla Sigurðar Demetz, Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Haag. Elmar hefur sungið fjölda óperuhlutverka við helstu óperuhús í Hollandi, komið fram á tónleikum og sungið við óperuhús víða um Evrópu og einnig sungið við Íslensku óperuna, þar sem hann sló eftirminnilega í gegn síðastliðinn vetur í hlutverki Daða Halldórssonar í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði.Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.