Sunnudaginn 27. júní kl. 14 mun Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri sýningarinnar Diskótek, ræða við gesti um sýninguna og samstarf sitt við listamanninn Arnfinn Amazeen. Heiðar Kári Rannversson hefur starfað sem sýningarstjóri við Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn síðan árið 2018.
Á sýningunni getur að líta ný verk eftir listamanninn þar sem hann sækir innblástur í óræðan myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að titillinn vísi í gleðskap er þetta heldur draugalegt diskótek, sem Arnfinnur hefur sett upp í Sverrissal Hafnarborgar. Hér er enginn glaumur og ekkert glys, heldur óljós ummerki um eitthvað sem hefur átt sér stað. Ómur af hávaða sem löngu er þagnaður.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.