Það verður fjölbreytt dagskrá í Hafnarborg á Safnanótt. Boðið verður uppá námskeið í hreyfimyndagerð fyrir krakka á aldrinum, töfrandi fjölskyldusmiðju þar sem leikið verður með ljós og skugga, tarrotlestur listamanns og heimsóknir í geymslur safnsins. Hljómsveitin Hrafnar munu svo leika þjóðlagatónlist í lok kvölds á veitingastaðnum Bike Cave sem staðsettur er á jarðhæð safnsins.
Kvenhetjan
18:00 – 23:00
Listamaðurinn Steingrímur Eyfjörð sýnir úrval verka frá upphafi ferils hans til dagsins í dag sem hafa konur eða kvenpersónur að viðfangi. Konur hafa fylgt Steingrími sem viðfangsefni frá því snemma á ferlinum. Hann skoðar orðræðuna um konur sem tákn jafnt sem hina eilífu togstreitu milli marglaga veruleikans og ímyndarinnar. Það getur verið viðkvæmt í samfélagi dagsins í dag að karlmaður tjái sig um konur eða eigin sýn á tilfinningar þeirra og stöðu en mikilvægt engu að síður að endurspegla samfélagið með margradda og ósamhljóma kór allra kynja.
Rósa
18:00 – 23:00
Í Sverrissal Hafnarborgar sýnir Sigga Björg Sigurðardóttir innsetningu þar sem við kynnumst Rósu, uppruna hennar og sögu. Innsetningin samanstendur af teikningum, skúlptúrum og myndbandsverki með ágengri hljóðmynd. Rósa er af óljósri tegund en glímir við mennskar tilfinningar og aðstæður. Við skynjum trega hennar og örvæntingu um leið og við sjáum hana þroskast og bókstaflega móta sjálfa sig.
Persónurnar sem Sigga Björg skapar eru samansafn óhaminna tilfinninga. Þær sem eru hvorki menn né dýr sýna dýrslegt eðli mannsins og mannlegt eðli dýrsins. Tilfinningarnar sem ráða för eru hráar og villtar, óbeislaðar og stundum svolítið dónalegur. Atgangurinn er hryllilegur og fyndinn í senn.
Leikur að ljósi og skuggum – fjölskyldusmiðja
18:00 – 20:30
Björk Viggósdóttir myndlistarmaður býður uppá listasmiðju fyrir börn og fullorðna þar sem leikið er með ljós og skugga. Töfrandi veröld verður til þar sem furðuverur, form og litir varpast á veggi , sögur spinnast upp og skuggaleikhús leysist úr læðingi. Alls kyns pappír, litaðar filmur og margs konar efniviður er í boði fyrir þátttakendur og fólk er hvatt til þess að taka myndir af þessum skapandi leik sem er oft á tíðum myndrænn og heillandi.
Hreyfimyndagerð
18:00 – 20:00
Myndlistarkonan Ragnheiður Gestsdóttir leiðir listasmiðju þar sem þátttakendur fá að spreyta sig á hreyfimyndagerð. Hægt verður að prófa sig áfram með ólíkan efnivið svo sem fundið efni, teikningu og pappír. Mælst er til þess að þáttakendur í smiðjunni séu krakkar eldri en 8 ára. Fjöldi þátttakenda í listasmiðjunni er takmarkaður og því er mikilvægt að koma í tíma til þess að tryggja sér pláss.
Á bak við tjöldin – Heimsókn í geymslur safnsins
20:00 – 22:00
Gestum er boðið að skyggnast á bak við tjöldin í Hafnarborg og skoða þau undur sem leynast í geymslum safnsins í fylgd starfsmanna. Hver heimsókn er stutt og tekið er á móti gestum í litlum hópum, hámark 10 gestir í einu.
Spjall og Tarrotlestur listamanns
21:00 – 23:00
Listamaðurinn Steingrímur Eyfjörð ræðir við gesti og gangandi um um sýninguna Kvenhetjan sem stendur nú yfir í aðalsal Hafnarborgar en þar má sjá úrval þeirra verka Steingríms frá upphafi ferilsins til dagsins í dag sem hafa konur eða kvenpersónur að viðfangi.
Milli klukkan 21 og 22 mun Steingrímur rýna inn í framtíðina og lesa í tarrotspil fyrir forvitna gesti sýningarinnar.
Hrafnar – Lifandi tónlist
21:00 – 23:00
Endaðu annasama Safnanótt á að hlíða á skemmtilega þjóðlagatónlist í flutningi hljómsveitarinnar Hrafnar. Hljómsveitin kemur fram á veitingastaðnum Bike Cave sem staðsettur er á jarðhæð Hafnarborgar.
Hljómsveitina skipa Georg Óskar Ólafsson, Hermann Ingi Hermannsson, Hlöðver Guðnason, Vignir Ólafsson og Helgi Hermannsson.