Þriðjudaginn 3. desember kl. 20 mun Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sýningarstjóri, flytja fyrirlestur um Guðjón Samúelsson, undir yfirskriftinni Byggingarlist Guðjóns Samúelssonar – hliðstæður og áhrifavaldar, í tengslum við yfirlitssýningu á verkum húsameistarans, sem nú stendur yfir í Hafnarborg.
Guðjón Samúelsson er eflaust kunnastur fyrir tilraunir sínar til að móta sérþjóðlegan, íslenskan byggingarstíl. Sem arkitekt var hann þó ekki síður brautryðjandi nýrra alþjóðlegra hugmynda í húsagerð og borgarskipulagi. Í fyrirlestri Péturs verður sjónum beint að þeim straumum og stefnum í byggingarlist á fyrri hluta 20. aldar sem beint og óbeint höfðu áhrif á verk Guðjóns.
Guðjón var vissulega frumkvöðull á mörgum sviðum og átti veigamikinn þátt í nútímavæðingu íslensks samfélags. Opinber staða hans gaf honum einstakt tækifæri til áhrifa á byggingar- og skipulagsmál heillar þjóðar sem fáum arkitektum hefur hlotnast fyrr né síðar. Fyrir þjóð sem aldrei eignaðist gotneskar kirkjur eða hallir í klassískum stíl hafa verk Guðjóns sérstaka þýðingu.
Sýningarstjórar yfirlitssýningarinnar eru Ágústa Kristófersdóttir og Pétur H. Ármannsson. Sýningin er unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands, sem veittu ómetanlegt aðgengi að safnkosti sínum. Sýningin naut einnig styrks frá safnasjóði.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.