Miðvikudaginn 16. mars kl. 20 mun Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur leiða göngu um mögulega Borgarlínu framtíðarinnar. Rætt verður um framtíð Hafnarfjarðar út frá almenningssamgöngum og mikilvægi þess að skipuleggja almenningssamgöngur til langs tíma. Gengið er frá Hafnarborg.
Þessir viðburðir eru haldnir í tengslum við opnu vinnustofuna Þinn staður – Okkar bær sem Hafnarborg ásamt Umhverfis og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðar og Markaðsstofu Hafnarfjarðar hafa staðið sameiginlega að. Þar verða kynnt helstu framkvæmdir og skipulagsverkefni í miðbæ Hafnarfjarðar og nágrenni hans. Skipulag og hönnun umhverfis skiptir okkur öll miklu máli og getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir það mannlíf sem ætlað er að dafna á hverjum stað. Mikilvægt er að sem flestar raddir fái að hljóma í skipulagsvinnunni og tekið sé tillit til óska þeirra sem eiga að gæða hið byggða umhverfi lífi með nærveru sinni. Í vinnustofunni gefst almenningi tækifæri til að ræða áherslur skipulagsyfirvalda og koma með ábendingar um það sem vel er gert og hvað má bæta. Sýningarstjóri er Magnea Guðmundsdóttir, arkítekt.