Þriðjudaginn 4. október kl. 12 verður sannkölluð Bassaveisla á hádegistónleikum í Hafnarborg en þá kemur fram Bjarni Thor Kristinsson og syngur aríur sem spanna breitt svið óperubókmenntanna. Hefndir, peningar, rógburður og bænir eru umfjöllunarefni þeirra verka sem Bjarni mun flytja úr óperunum Brúðkaupi Figaros eftir Mozart, Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, Fidelio eftir Beethoven og Simone Boccanegra eftir Verdi.
Bjarni Thor Kristinsson er hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hefur hvað lengst á erlendri grund. Eftir að hafa numið söng um árabil á Íslandi hélt hann árið 1994 út til frekara náms við óperudeild Tónlistarháskólans í Vín. Vorið 1997 var Bjarni síðan ráðinn sem aðalbassasöngvari Þjóðaróperunnar þar í borg og var þá fastráðinn til þriggja ára. Að þeim tíma liðnum sneri Bjarni sér að lausamennsku í söng og hefur hann síðan verið fastur gestur í Ríkisóperunni í Berlín auk þess að koma fram í óperuhúsum um allan heim. Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu hjá Íslensku óperunni haustið 2006 og fékk Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, sem söngvari ársins fyrir hlutverkið. Þá tók hann þátt í flutningi á verkinu Edda 1 eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2006.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir og enginn aðgangseyrir. Húsið er opnað kl. 11.30.
Næstu hádegistónleikar verða þriðjudaginn 1. nóvember og þá er það barítónsöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson sem kemur fram.