Laugardaginn 25. nóvember kl. 13-15 býður Hafnarborg upp á fjöltyngda listasmiðju þar sem arabísk leturtákn verða innblástur fyrir listræna sköpun undir leiðsögn líbönsku listakonunnar Yöru Zein. Tungumál smiðjunnar eru íslenska, enska og arabíska.
Í smiðjunni fá þátttakendur tækifæri til að kanna fegurð arabískrar skrautskriftar og læra nokkur grunnatriði í arabískri leturgerð í skemmtilegu og skapandi umhverfi. Allur efniviður verður á staðnum, svo sem stenslar, pappír og marglitir pennar, sem þátttakendur nota til að skapa sín eigin listaverk til að taka með heim.
Yara Zein (f. 1995) er líbönsk listakona búsett á Íslandi. Hún er með BA-gráðu í myndlist og arkitektúr frá Académie Libanaise des Beaux Arts í Beirút og MFA í myndlist frá Nottingham Trent-háskólanum, Englandi. Verk Yöru bera vott um bakgrunn hennar og reynslu af því að alast upp í Líbanon í kjölfar borgarastyrjaldar. Í hljóð- og myndverkum kannar Yara gjarnan mótsagnakenndar hugmyndir um samfélagslegt minnisleysi, ánægju og gleði í samhengi við flókið félagslegt umhverfi.
Á mínu máli er viðburðaröð sem miðar að því að auka aðgengi fólks með margs konar bakgrunn að Hafnarborg með því að bjóða gesti velkomna á ólíkum tungumálum. Viðburðurinn er samstarf Hafnarborgar og GETU – hjálparsamtaka (Get Together) sem styðja við flóttafólk og hælisleitendur í Hafnarfirði. Viðburðaröðin er styrkt af safnasjóði.
Smiðjan er opin öllum aldurshópum en hvorki er krafist þekkingar á arabískri leturgerð né reynslu af listsköpun. Smiðjan fer fram á jarðhæð safnsins og skulu börn vera í fylgd með foreldri eða forráðamanni. Eins og alltaf er þátttaka í smiðjum sem og aðgangur að sýningum safnsins ókeypis.