Sýningar Hafnarborgar verða opnar eins og venjulega á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 12-17 en auk þess mun Annríki halda sérstaka þjóðbúningasýningu í Apótekinu á jarðhæð safnsins, líkt og hefð hefur skapast fyrir í safninu undanfarin ár. Þá má sjá verk eftir þátttakendur sumarnámskeiðs Hafnarborgar í myndlist í bogastofunni á efri hæð safnsins. Í tengslum við sýningu Annríkis bendum við einnig á að þjóðbúningamyndataka fer fram við Hafnarborg kl. 14:30.
Um yfirstandandi sýningar safnsins
Á hafi kyrrðarinnar
Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson
Á sýningunni eru sýnd bæði ný og eldri verk þar sem Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson tvinnar saman aðferðum vefnaðar og málaralistar auk útsaumsverka, nýrra blekteikninga og vatnslitaverka. Hildur hefur búið meirihluta ævi sinnar í Cleveland í Ohio en heldur sterkt í rætur sínar á Íslandi. Hún kemur reglulega hingað til lands, ferðast, gengur um og tekur ljósmyndir, sem hún vinnur síðan úr þegar heim er komið. Auk þess að leita fanga í landslagi Íslands við gerð verka sinna hefur Hildur um árabil gert myndraðir sem byggja á heilaskönnunum og himintunglum, þar sem handlitaðir silkiþræðir tvinnast saman í dúnmjúku yfirborði og verða að athvarfi frá amstri hversdagsins. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.
Hikandi lína
Elísabet Brynhildardóttir
Teikningin er fyrsta sjónræna viðbragð okkar við heiminum löngu áður en við lærum að skrifa og virkar hún sem eins konar vörpun ímyndunarafls og hugsana í efni. Fáir miðlar myndlistarinnar komast eins nálægt hrárri sýn listamannsins eins og teikningin – hún er beintenging við hugsunina og varpar jafnframt ljósi á afar náið samband manns og verkfæris. Á sýningunni skoðar Elísabet Brynhildardóttir tímann, tilfinninguna og skynjunina að baki teikningunni og þeirri aðgerð að teikna, eða eins og listamaðurinn Richard Serra sagði eitt sinn: „Þú býrð ekki til teikningu – þú teiknar.“
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.