
Föstudaginn 5. desember kl. 18 mun söngkonan Silva Þórðardóttir koma fram á næstu Síðdegistónum í Hafnarborg ásamt þeim Þorgrími Jónssyni á kontrabassa og Andrési Þór Gunnlaugssyni á gítar. Á efniskránni verður ýmislegt jólalegt í bland við þekkta djassstandarda.
Silva Þórðardóttir nam djasssöng við Tónlistarskóla FÍH og gaf út standardaplötuna Skylark árið 2019. Í framhaldi af því hefur hún sungið með mörgum af fremstu djassflytjendum landsins, hlotið þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir djasssöng, auk þess að koma reglulega fram með söngvarasamsteypunni Jazzkonum. Þá gáfu þau Silva & Steini (Steingrímur Teague) út plötuna More Than You Know árið 2022 við fádæma undirtektir en lögum af henni hefur nú verið streymt um sex milljón sinnum. Síðustu jól kom svo út plata þeirra Christmas with Silva & Steini og More Understanding fylgdi í kjölfarið í september á þessu ári.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ.
"*" indicates required fields