Hafnarborg merki

Hafnarborg

Spjall
18.01.26 | 14:00 - 15:00

Roði – erindi bókmenntafræðings

Salur
Hafnarborg

Sunnudaginn 18. janúar kl. 14 mun Þröstur Helgason, bókmenntafræðingur, fjalla um myndlist Eggerts Péturssonar út frá sýningunni Roða, sem stendur nú yfir í Hafnarborg. Þröstur setur verk sýningarinnar í samhengi við feril Eggerts og skoðar sérstaklega notkun hans á rauða litnum. Við sögu kemur einnig röð verka eftir Eggert þar sem blái liturinn er áberandi. Fjallað er um merkingu litanna og hvernig þeir hafa verið notaðir í myndlist í gegnum tíðina. Í erindinu verður einnig varpað ljósi á grafíkverk Eggerts á sýningunni.

Á sýningunni getur að líta málverk sem Eggert hefur unnið sérstaklega fyrir þetta tilefni, þar sem listamaðurinn heldur áfram rannsókn sinni á íslenskri náttúru og beinir nú sjónum sínum upp á við – að fjallagróðri og opnum himni. Smæstu jurtir verða að stórbrotnu landslagi þar sem gróður og yfirborð jarðar breytast í fínstillta myndbyggingu sem endurspeglar tíma, birtu og breytileika. Einnig er sýnd sería nýrra grafíkverka, unnin í tengslum við væntanlega þýðingu á Paradís úr Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante, þar sem andlegur og táknrænn heimur kallast á við jarðbundna sýn listamannsins.

Eggert Pétursson (f. 1956) býr og starfar í Reykjavík. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan van Eyck Academie í Maastricht. Verk hans hafa meðal annars verið sýnd í Nýlistasafninu, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Nordatlantensbrygge í Kaupmannahöfn og Pori Art Museum í Finnlandi. Jafnframt má nefna að Eggert hlaut önnur verðlaun Carnegie Art Award 2006 (Osló, Stokkhólmur, Helsinki, Reykjavík, Kaupmannahöfn og Nice). Þá myndskreytti Eggert vinsæla útgáfu af Íslenskri flóru eftir Ágúst H. Bjarnason sem kom fyrst út árið 1983. Eggert starfar með i8 gallerí í Reykjavík þar sem hann hefur oftsinnis sýnt. Ýmsar bækur tileinkaðar verkum hans hafa einnig verið gefnar út.

Þröstur Helgason er með doktorspróf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og á að baki langan feril sem menningarblaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og fræðimaður. Hann vinnur nú að bók um menningarsögu bláa litarins.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Skráðu þig á póstlistann okkar

Fylgstu með því nýjasta sem er fram undan á safninu.

"*" indicates required fields

Bóka heimsókn